143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[10:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Starfsendurhæfingarsjóðirnir voru settir í gang til þess að auka starfsendurhæfingu, eins og nafnið bendir til. Það er hins vegar mjög erfitt að gera það þegar við búum enn þá við 75% örorkumat sem gerir okkur mjög erfitt um vik að endurhæfa fólk. Tillagan hér um að þeir fái ekki tekjur á árunum 2013 og 2014 tekur mið af því.

Hins vegar er unnið að því að koma með starfsgetumat og þá mun ekki veita af miklum fjárhæðum í starfsendurhæfingu, þegar búið er að setja kerfið inn í svona rökrétt samhengi, að það sé hægt að endurhæfa fólk. Þetta er mjög mikilvægt.

Hins vegar er í sjóðunum töluvert mikið fé sem endist örugglega vel út árið 2014, en eftir það þurfum við að taka okkur á og veita meira fé í þessa sjóði.

Ég segi já við þessu.