143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[10:59]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er með sérstakri ánægju sem ég greiði þessari tillögu atkvæði. Hér er verið að fella niður sjúklingaskatta ríkisstjórnarinnar. Hún hóf vegferð sína í fjárlagafrumvarpi í haust með því að ætla að leggja sérstakt gistináttagjald á veikt fólk. Þessi ríkisstjórn sem treysti sér ekki til að leggja gistináttagjald á útlenda ferðamenn ætlaði sér sem sagt að leggja gistináttagjald á veikt fólk. Hún hrökklaðist svo undan gagnrýni á þessar hugmyndir að hæstv. forsætisráðherra afneitaði þeim í beinni útsendingu að kvöldi stefnuræðudags, áður en fjárlagafrumvarpið var lagt fram.

Síðan höfum við beðið eftir að sjá hvaða útfærslu hæstv. ríkisstjórn mundi finna á því að rukka sjúklinga sérstaklega fyrir veikindi sín. Niðurstaðan var innritunargjald. Það gat enginn útskýrt hvernig ætti að innheimta það, hvar ætti að innheimta það, hvort ætti að vísa frá fólki sem ekki væri í ástandi til að taka ákvörðun um hvort það ætlaði að borga gjaldið eða ekki.

Okkur tókst nú blessunarlega í samningum um þinglok að fá ríkisstjórnina ofan af þessu. Það er heillaskref að við skulum áfram hafa gjaldfrjálst (Forseti hringir.) spítalakerfi eins og við höfum haft frá upphafi alþýðutrygginga í þessu landi. (Gripið fram í.)