143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[11:04]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Við fögnum því að sjálfsögðu að komugjöld, eða legugjöld eftir atvikum, eftir því hvað menn ætluðu sér, séu felld brott. Við höfum alltaf lagt áherslu á það í málflutningi okkar að við ljúkum heildarendurskoðun á fyrirkomulagi gjaldtöku af sjúklingum á spítölum.

Við þurfum að horfast í augu við það að víða er tekið gjald af sjúklingum. Það er ekki réttlátt hvernig það skiptist. Okkur fannst alltaf einkennilegt að koma með þessa tillögu inn í þingið til hliðar við þá vinnu alla saman.

Stundum er í stjórnmálum talað um reyksprengjur og ég held að við sjáum þær oft í okkar stjórnmálamenningu. Þá er eitthvað sett fram sem líklegt deilumál til að geta bakkað með það síðar. Mér finnst þetta líta dálítið út eins og möguleg reyksprengja. Þetta var allan tímann óútfært og nú er bakkað með þetta, en það er í öllu falli gott.