143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

95. mál
[11:21]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Nefndin fékk fjölmarga aðila á sinn fund til þess að fjalla um málið.

Frumvarpið tekur til þriggja óskyldra efnisþátta, þ.e. umhverfismerkja, færanlegrar starfsemi og innleiðingar EB-tilskipana um loftgæði. Megintilgangur frumvarpsins samkvæmt athugasemdum við það er að innleiða þrjár EB-gerðir og að styrkja framkvæmd norræna umhverfismerkisins hér á landi. Þær gerðir sem lagt er til að verði innleiddar eru reglugerð EB nr. 66/2010 um umhverfismerki Evrópusambandsins, tilskipun 2008/50/EB um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu og tilskipun 2001/81/EB um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni. Frumvarp um þetta efni var lagt fram á 140. og 141. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið var sent ýmsum aðilum til kynningar á fyrri stigum og jafnframt sett á heimasíðu umhverfisráðuneytis, nú umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Unnið var úr umsögn sem barst frá Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi og aðilum úr atvinnulífinu og tók frumvarpið nokkrum breytingum í framhaldi af því.

Það er í rauninni ekki mikið meira um þetta frumvarp að segja. Það er ánægjulegt að segja frá því að umhverfisnefnd eins og hún leggur sig, bæði stjórn og stjórnarandstaða, er á þessu nefndaráliti án fyrirvara. Vil ég þakka hv. félögum mínum í umhverfis- og samgöngunefnd fyrir afar gott samstarf á þessu hausti og vonast til þess að samstarfið verði jafn gott á vorþingi og það var núna.