143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014. Við erum eðli málsins samkvæmt búin að ræða þetta mál mjög mikið að undanförnu, það er vel og það er nauðsynlegt. Ég ætla bara að fara yfir helstu atriði sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu og breytingartillögunum. Ég held að óhætt sé að segja að þetta fjárlagafrumvarp endurspegli breytta forgangsröðun í ríkisfjármálum. Það hefur bersýnilega komið í ljós í umræðu undanfarinna vikna og mánaða að það er ekki sjálfgefið að hafa hallalaus fjárlög, en þetta frumvarp miðar að því og samkvæmt því sjáum við hér sem betur fer jákvæðan heildarjöfnuð upp á 927 millj. kr.

Á sama tíma hefur sérstök áhersla verið lögð á það að efla heilbrigðismálin. Við sáum hækkun frá frumvarpinu 2013 til frumvarpsins 2014 um 4,5 milljarða. Í meðförum þingsins var það framlag hækkað enn frekar og núna erum við að tala um 10 þús. millj. kr. aukningu frá fjárlögum 2013. Einnig sjáum við aukna áherslu á styrkingu til eldri borgara og öryrkja með því að hverfa frá skerðingarákvæðum sem áður voru inni. Þar erum við sömuleiðis að tala um milljarða. Við erum að breyta hér um skattstefnu, við erum að hefja skattalækkanir á fólk og fyrirtæki sem eru afskaplega mikilvægt og stórt mál.

Við sjáum enn fremur í þessu frumvarpi mjög stór úrræði í skuldamálum. Í skattamálunum eru ekki bara lækkanir, það eru líka hækkanir á fjármálafyrirtæki sem um hefur náðst nokkuð góð sátt í meðförum þingsins sem kannski má sjá best á því að þrátt fyrir efasemdir og jafnvel gagnrýni frá hv. stjórnarandstöðu á þá skattlagningu hefur öll stjórnarandstaðan tekið undir það og að mér sýnist bæði greitt atkvæði með þeim sköttum og sömuleiðis gert ráð fyrir þeim í sínum tillögum.

Ég tel mjög mikilvægt að við séum meðvituð um þá breytingu sem hefur orðið á þessu fjárlagafrumvarpi. Þar sjáum við það sem margir hafa talað fyrir, m.a. núverandi forseti þingsins, hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra og fjölmargir aðrir hv. þingmenn og stjórnmálamenn í gegnum tíðina, að það er mikilvægt að auka sjálfstæði þingsins og að það sé sjálfstætt í athöfnum sínum. Við höfum séð það hér í verki. Í meðförum þingsins hafa verið gerðar veigamiklar breytingar á frumvarpinu, að sjálfsögðu í góðri sátt á milli stjórnarflokkanna, ríkisstjórnar og hv. stjórnarmeirihluta, en það hafa verið gerðar verulegar breytingar á frumvarpinu. Það er sjálfstæði þingsins í raun. Þannig virkar það því að gagnrýnin fram til þessa hefur verið sú að hér hafa komið mál frá framkvæmdarvaldinu sem hafa farið beint í gegnum þingið, jafnvel án mikillar umræðu. Sérstaklega hefur verð áberandi að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa ekki lagt sitt sjálfstæða mat á það, heldur keyrt í gegn breytingar frá hæstv. ríkisstjórn.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir rakti sérstaklega í umræðum um fjárlagafrumvarpið vinnubrögðin á síðasta kjörtímabili, rakti það þegar meiri hluti hv. fjárlaganefndar fékk í hendurnar breytingartillögur frá þáverandi hæstv. ríkisstjórn, gerði þær að sínum á sama fundi og þær komu fram og keyrði þær þannig í gegnum nefndina. Þetta er nokkuð sem við höfum ekki séð í þessum fjárlögum, þvert á móti hefur hv. fjárlaganefnd lagt sitt sjálfstæða mat og sett mark sitt á þetta frumvarp og þá í báðar áttir. Það er mjög langt síðan hv. fjárlaganefnd hefur skoðað útgjaldahlið jafn gagnrýnið og nú hefur gerst og komið með breytingartillögur sem miða að því að lækka útgjöld á ákveðnum sviðum til að hækka þau á öðrum, með öðrum orðum forgangsraðað í þessu máli fyrst og fremst í þágu heilbrigðisþjónustunnar.

Þetta er sjálfstæði þingsins í hnotskurn og kemur fram í störfum þess.

Hvað sem okkur finnst um fjárlagafrumvarpið og einstakar stjórnmálastefnur vona ég að þetta sé komið til að vera. Ég vona að hv. Alþingi og stjórnarmeirihluti, sama hver hann er, líti ekki svo á að honum beri að vera verkfæri framkvæmdarvaldsins.

Ég vek athygli á því að forustumenn stjórnarflokkanna, hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson og hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafa ekki bara talað um þetta því að undir forustu þeirra höfum við séð áþreifanlegar breytingar í þessu efni. Það er mjög mikilvægt að við séum meðvituð um að þetta sé breyting sem er komin til að vera og að við aukum frekar fagleg og sjálfstæð vinnubrögð þingsins en förum ekki á sama stað og þingið var á áður.

Ég vek þó líka athygli á annarri breytingu sem hefur komið fram í vinnubrögðum þingsins núna. Það er rétt hjá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar þegar hún gagnrýnir stjórnarmeirihlutann fyrir að hafa komið seint fram með sumt sem snýr að þessu máli, það er réttmæt gagnrýni. Í því efni þurfum við í stjórnarmeirihlutanum að standa okkur betur. Það er mikilvægt að við fáum góðan tíma til að fara yfir málin og þar máttum við standa okkur betur. Það skal bara sagt og viðurkennt.

Ég vek þó athygli á því að ég tel það breytingu til batnaðar að núna á þessum tíma árs erum við ekki, eins og stundum hefur gerst og var sérstaklega áberandi á síðasta kjörtímabili, að keyra í gegn í desembermánuði mörg stórmál sem þurfa mikla yfirlegu og umræðu. Hér erum við einungis með fjárlögin undir, eða að langstærstum hluta. Það tel ég skynsamlegt.

Við vitum að forusta hv. stjórnarandstöðu notaði samt tækifærið vegna þess að það er skammur tími til að knýja fram allra handa breytingar á fjárlagafrumvarpinu. Mér vitanlega hefur það ekki verið gert áður í sama mæli. Burt séð frá efni máls er það umhugsunarefni vegna þess að oft og tíðum gagnrýnum við lönd sem eru með svipað fyrirkomulag. Þar nefni ég til dæmis Bandaríkin þar sem tveir stórir flokkar takast á síðustu metrunum á um sérstaklega fjárlagafrumvarpið og semja sig í gegnum það. Það má vera að þetta sé gott fyrirkomulag en ég er ekki alveg sannfærður um það. Valkostur stjórnarliða var að keyra í gegn sína hluti með góðu eða illu því að svo sannarlega er hér stór þingmeirihluti. Við hefðum þá væntanlega verið hér fram á Þorláksmessu, jafnvel milli jóla og nýárs. Hinn kosturinn var að setjast niður og reyna að finna flöt á málum. Seinni leiðin var farin og ég vona og efast ekki um að margt sem var breytt var til bóta. Ég er ekki að ræða þann þáttinn, ég er meira að ræða vinnubrögðin og það hvers konar fyrirkomulag við viljum hafa í vinnubrögðum okkar í þinginu. Við vitum það sem höfum verið hér í einhvern tíma, og er frekar augljóst, að hlutverk breytast. Stundum eru menn í stjórn og stundum í stjórnarandstöðu. Það er í það minnsta mikilvægt að við séum meðvituð um það hvaða breytingar við séum að gera á vinnubrögðum því að það sem verður gert í dag hefur fordæmisgildi inn í framtíðina. Við ættum að gefa okkur góðan tíma til að ræða það hvernig við viljum sjá þessum málum fyrir komið.

Fjárlagafrumvarpið er á forræði stjórnarmeirihlutans og stjórnarmeirihlutinn ber ábyrgð á því. Fram til þessa hefur stjórnarandstaðan litið þannig á það. Önnur leið hefur verið farin núna sem ég veit ekki hvort breytir einhverju um ábyrgð stjórnarliða, ég tel það að stærstum hluta ekki vera þannig, en þetta er samt sem áður breyting á vinnubrögðum sem við ættum að velta fyrir okkur hvort skynsamlegt sé að hafa til framtíðar.

Virðulegi forseti. Sömuleiðis tel ég að við ættum aðeins að hugsa um það hversu lýðræðislegt það er að hagsmunaaðilar komi að gerð fjárlaga. Þá er ég að vísa til þess að nú eru forstjórar einstaka ríkisstofnana að fara í fjölmiðla og telja að þeir fái einhverjar fjárveitingar í nafni þess að sterk hagsmunaöfl fyrir utan þingið, að vísu gríðarlega sterk hagsmunaöfl, hafi ákveðið það og komist að þeirri niðurstöðu og nýtt afl sitt til þess að fá sínar breytingar fram.

Nú getum við haft allar skoðanir á því hvort það sé skynsamlegt að setja fjármuni í einstaka ríkisstofnun til eða frá. Svo mikið er víst að hagsmunagæslan í kringum ríkisstofnanir er gríðarleg. Það er enginn vafi á því í mínum huga eftir að vera búinn að fara í þessa vinnu að enginn lobbíismi, ef við getum kallað það svo á ljótri íslensku, er harðari en á bak við einstakar ríkisstofnanir. Þegar maður kemur að ríkisfjármálum og hefur áhuga á að breyta forgangsröðun, sem ég held að flestir hafi, og sér kannski ýmislegt sem má minnka vegna þess að við viljum leggja í annað finnur maður fyrir því að þar er gríðarlega sterk hagsmunagæsla, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Hún er orðin svo blygðunarlaus að einstaka forstöðumenn ríkisstofnana koma í fjölmiðla og segja að þeir fái ákveðnar fjárveitingar vegna þess að hagsmunaaðilar úti í þjóðfélaginu hafi ákveðið það og keyrt það í gegn fyrir utan sali þingsins, fyrir utan lýðræðislega kjörið þing. Þetta þykir fullkomlega sjálfsagt og eðlilegt. Ég man að vísu ekki eftir jafn skýrum dæmum og fyrir þessi fjárlög, en hins vegar liggur alveg fyrir að þetta er niðurstaðan.

Ég ætla að fara yfir helstu breytingar á frumvarpinu á milli umræðna. Þar vega náttúrlega langstærst skattar á bankastarfsemi. Það mun að stórum hluta fara í lækkun á húsnæðislánum sem við munum örugglega ræða hér á næsta ári, enda um mikið og stórt mál að ræða. Við sjáum sömuleiðis eftirlitsgjöld vegna dýrahalds hækka verulega, þ.e. um 44 millj. kr. Það er mál sem ég tel afskaplega mikilvægt að við skoðum vel. Ég tel að hv. fjárlaganefnd eigi að vinna af miklum krafti eftir áramót í að skoða þá þætti. Það sem við köllum eftirlit hefur stækkað alveg gríðarlega á undanförnum árum og áratugum sem er mikið til komið vegna tilskipana sem eru misjafnlega úr garði gerðar og eiga misvel við á Íslandi. Þar eru stofnanir sem hafa vaxið gríðarlega mikið. Það er áhugavert, sérstaklega í ljósi þess að alla jafna hefur verið kallað eftir því í þjóðfélaginu, a.m.k. í almennri umræðu, að við eigum að bæta í grunnstoðir og grunnþjónustuna sem við þurfum á að halda, heilbrigðisþjónustuna, löggæsluna, menntamálin og annað slíkt, en það sem hefur vaxið sérstaklega á síðustu fjórum og sex árum eru eftirlitsstofnanirnar.

Það er verið að setja aukna fjármuni í Alþingi, sérstaklega 44 milljónir til að halda upp á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna. Það verður sömuleiðis gert ráð fyrir svipuðum upphæðum á næsta ári, þ.e. fjárlagaári 2015, og þarf ekkert að rökstyðja það sérstaklega. Forsvarsmenn óbyggðanefndar töldu óhagkvæmt að skera framlag jafn mikið og ráð var fyrir gert, þ.e. um 20 milljónir á þessu ári, og færðu fyrir því þau rök að það mundi ekki leiða til sparnaðar að gera svo mikla aðhaldskröfu á þessu ári. Á þau rök var fallist og settar 10 millj. kr. í viðbót. Það er sett aukið fé í Háskóla Íslands og Rannsóknasjóð. Sömuleiðis var gerð breyting í kjölfar gagnrýni, fyrst hv. meiri hluta fjárlaganefndar og svo minni hluta, um að við fylgdum ekki eftir fjárreiðulögum varðandi fjáraukann. Þess vegna eru settar 242 milljónir í framkvæmd á almennri skólastefnu 2014 í staðinn fyrir að hafa það fé í fjáraukalögum 2013 og sparnaður kemur þar á móti. Það er að vísu holur hljómur í þessu hjá okkur á hv. Alþingi vegna þess að síðan gerðum við aðrar breytingar á fjáraukalögunum sem eru þvert á það prinsipp sem lagt var upp með í þessu. Við héldum okkur ekki við þennan anda fjárreiðulaganna annars staðar þó að við breyttum þessu í menntamálunum.

Það er aukið framlag í myndlistarsjóð og hönnunarsjóð, og Matvælastofnun eins og ég nefndi í tengslum við breytt lög um dýravernd. Það er sett 50 milljóna tímabundið framlag í verkefnið Brothættar byggðir hjá Byggðastofnun. Svo er millifærsla varðandi Vegagerðina sem var búið að ákveða áður vegna rannsókna á samgöngukostum milli Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar. Sömuleiðis eru hækkuð verulega framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, um nærri 500 millj. kr. í samræmi við hækkaðar skatttekjur ríkissjóðs. Þetta er gríðarleg aukning í þann sjóð.

Á sama tíma var sett aukið fjármagn í sjúkrahúsin og heilbrigðisstofnanir vegna þess að fallið var frá innritunargjaldi á spítala. Sú umræða er því miður ekki þinginu til sóma og því er jafnvel haldið fram að sú gjaldtaka hafi verið nýtilkomin og fullyrt að hér sé ekki tekið gjald af sjúklingum. Allir þeir sem kynna sér það vita að það eru fullkomin ósannindi. Það er misjafnt eftir því í hvaða aðgerðir viðkomandi einstaklingar fara hvort þeir borga gjald eða ekki. Sjúklingar á Íslandi borga gjald fyrir mjög margar aðgerðir ef þeir fara á spítala. Þær fullyrðingar að bara veikasta fólkið þurfi ekki að greiða standast heldur ekki skoðun. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur margoft bent á það og spurt málefnalegra spurninga, hvort það sé virkilega þannig að sá einstaklingur sem fer í krossbandaaðgerð sé minna veikur en sá sem er í krabbameinsmeðferð. Sem betur fer þarf sá sem er í krabbameinsmeðferð ekki að vera á spítala. Við erum komin það langt í þróuninni og vonandi þurfum við ekki að snúa við hvað það varðar. Hann þarf hins vegar að fara í ýmsar aðgerðir eins og bent hefur verið á sem þarf að greiða fyrir, en ef sá sem er með krossbandsslit, svo við tökum þann flokk sérstaklega, liggur yfir nótt þarf hann ekki að greiða fyrir aðgerðina.

Ég vona að þegar kemur að þessum viðkvæma málaflokki, þ.e. gjaldtöku af þeim sem veikastir eru í þjóðfélaginu, verði umræðan í nánustu framtíð málefnalegri og meira byggð á staðreyndum. Ríkisstjórnin sem hér var hækkaði verulega gjaldtökur af sjúklingum. Hlutfall sjúklingagjalda til heilbrigðisþjónustunnar hækkaði líka. Þetta er allt saman skjalfest. Staðreyndirnar liggja fyrir, en það vantar nokkuð upp á að umræðan sé málefnaleg og byggð á staðreyndum.

Sömuleiðis er hér bætt verulega í rekstur Vinnumálastofnunar, hvorki meira né minna en 250 millj. kr. Svipaðar tilfærslur voru á sama tíma á síðasta ári. Þegar kemur að vinnumarkaðsaðgerðum, Vinnumálastofnun og öllum þeim úrræðum og stofnunum sem þar heyra undir, hefur Alþingi að mínu áliti brugðist eftirlitsskyldu sinni. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að hv. fjárlaganefnd skoði þessi mál gaumgæfilega á næsta ári. Umfang stofnunarinnar miðað við þau módel sem til staðar eru er ekki í samræmi við atvinnuleysið, stofnunin ætti að vera minni. Sömuleiðis virðast sömu hlutirnir gerðir á fleiri en einum stað sem hið opinbera greiðir fyrir. Ég var að vísa til hagsmunaaðilanna úti í bæ, að þeir beittu sér mjög í þessu máli. Fallist var á kröfu þeirra en það liggur alveg fyrir að við eigum vinnuna eftir. Ég mun í það minnsta gera hvað ég get til þess að fara gaumgæfilega ofan í þau mál strax í janúar því að það er hv. Alþingi ekki til sóma að ganga í stórauknar fjárheimildir til einnar stofnunar á síðustu dögum þings undir mikilli pressu frá hagsmunaaðilum í þjóðfélaginu.

Það má vel vera að hverri einustu krónu sé mjög vel varið með þessum hætti, en það hefur ekki verið gert eins og hv. fjárlaganefnd og löggjafinn eiga að gera. Reyndar bendir margt til þess að þarna megi margt betur fara. Við verðum að vinna vinnuna okkar hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Niðurstaða mín eftir að vera búinn að fara í gegnum þessi mál er sú að ríkissjóður eigi fáa vini. Stjórnmálamenn verða ekki vinmargir með því að vera vinir ríkissjóðs. Hins vegar fer hagur ríkissjóðs og almennings algjörlega saman. Þess vegna er ánægjulegt að nái þetta frumvarp fram að ganga og við sjáum það ganga eftir verða hér hallalaus fjárlög og nokkur afgangur á þeim. Það er ekki hægt að hugsa sér betri jólagjöf fyrir Íslendinga almennt en að við séum hætt að safna skuldum. Menn tala oft um einstaka hópa og tilfinningar en það er enginn vafi að sá hópur fólks sem fer verst út úr því að ríkissjóður safni skuldum og þurfi að greiða stærstan hluta af tekjum sínum, þá er ég að vísa í stærsta útgjaldaliðinn, er sá hópur sem minnst má sín. Hann fer langverst út úr því að við söfnum skuldum. Þá á ég við alla sem lítið mega sín.

Ég verð að segja að það er mikið afrek hjá hæstv. fjármálaráðherra að ná því markmiði að vera með hallalaus fjárlög. Það er mikið afrek að það skuli fara í gegnum þingið ef fer sem horfir því að svo sannarlega hefur verið togað í aðrar áttir. Þó að í orði tali flestir fyrir hallalausum fjárlögum hefur það ekki verið sýnt í verki. Þar er langur vegur frá.

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. fjárlaganefnd fyrir gott samstarf og góða vinnu. Við höfum lagað ýmislegt og reynum að gera það í okkar vinnu, en á heildina litið held ég að við getum verið sátt við þá byrjun sem við sáum í þessari vinnu. Ég þakka sérstaklega hv. formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, fyrir hennar framlag. Svo sannarlega hefur mikið mætt á hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og enginn stjórnmálamaður verður fyrir jafn miklu aðkasti og árásum og hv. þingmaður. Það væri í lagi ef það væri byggt á staðreyndum og málefnalegri umræðu, en því fer víðs fjarri. Þeir einstaklingar sem ganga lengst í slíkum vinnubrögðum gagnvart hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur eru ekki meiri menn af því. Svo mikið er víst. Ég held að flestir hv. stjórnmálamenn væru búnir að bugast undan þessum endalausu árásum en það vill svo til að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir eflist við hverja raun. Það er aðdáunarverður eiginleiki.

Af því að við erum að ræða fjárlögin og þessa vinnu tek ég sérstaklega út hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, en þetta er ekki bundið við stjórnmálin og stjórnmálamenn. Við sjáum að mínu áliti miklu harðari og grófari árásir á einstaklinga en við höfum séð áður. Í það minnsta var það ekki fyrir nokkrum árum. Hvað sem okkur finnst um einstakar stjórnmálastefnur og einstaka stjórnmálamenn eða aðila sem eru í forustu í þjóðfélaginu, hvort sem það er útvarpsstjóri eða einhver annar, svo ég taki bara eitt dæmi, held ég að við ættum að hugsa um hvort við séum á réttri braut þegar við færum umræðuna í þá átt sem hún er að fara í.

Ég held að það sé ágætt að við hugsum um það í aðdraganda jólanna og yfir jólahátíðina. Við verðum aldrei sammála. Það væri líka skelfilegt ef við værum sammála. Það er ekkert gott við það að allir séu sammála og það verður vonandi aldrei. Það er mjög mikilvægt að við tökumst á um hlutina. Það er mjög mikilvægt að við séum með gagnrýna hugsun og gagnrýnum stjórnvöld. Það er mjög mikilvægt að við gagnrýnum þá sem eru í meiri hluta í þinginu. Það er mikilvægt að við gagnrýnum ríkisstjórnina og þá sem eru í forustu, í þessu tilfelli í einhverjum nefndum, en það er ekki sama hvernig það er gert. Ég fullyrði að við náum ekki neinum árangri, að þjóðfélagið verður ekki betra og lagaumgjörðin verður ekki betri með því að fara fram með miklum árásum á einstaklinga.

Virðulegi forseti. Það er langur vegur frá að maður fái allt sitt fram og svo sannarlega er það ekki í þessum fjárlögum. Ég er hins vegar stoltur af því að hafa fengið að koma að þessu verki. Ég er stoltur af því að við séum hér að afgreiða hallalaus fjárlög. Næsta verkefni er að sjá til þess að þau verði framkvæmd eins og þau eru samþykkt. Þar er mikið verk óunnið. Það er mjög mikið verk óunnið þegar kemur að ríkisfjármálunum, svo mikið er víst, og ég held að ég tali fyrir hönd flestra, kannski allra, í hv. fjárlaganefnd þegar við segjum að eftir yfirferð okkar sjáum við að mjög margt má betur fara svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Það er verkefni okkar allra að bæta þar um.

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að þetta mál fái góða umfjöllun hér í dag og verði samþykkt sem allra fyrst því að þetta er gott fjárlagafrumvarp.

Ég vil nota tækifærið að lokum og þakka hv. fjárlaganefnd fyrir gott og ánægjulegt samstarf. Ég hlakka til að vinna með hv. fjárlaganefnd á nýju ári.