143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Varðandi það sem hann sagði um bankaskattinn, við höfum stutt hann að sjálfsögðu, við gerum það af því að við teljum að þangað getum við sótt tekjur. Það lögðum við líka fram í tekjuáætlun okkar fyrir 2. umr. Þetta snýst í öllu falli um það hvert og hvernig viljum við verja þeim fjármunum sem rými skapast fyrir að innheimta en ekki að við viljum ekki innheimta. Það er ekki rétt með farið. Það sem hann vísaði í, langa og þrönga göngu, tók ég beint upp úr tilvitnun til að hafa sagt það, það voru í rauninni ekki mín orð heldur var ég að vitna til álitsgjafa eða þá sem hafa verið að greina þennan vanda.

Það að geta ekki stutt bankaskattinn að svo stöddu er vegna þess að allt of mörg ágreiningsmál eru hvað hann varðar. Það er því miður of neikvæð umfjöllun um þetta eins og það stendur í dag, en mér þykir líka mikilvægt að öll sjónarmið komi fram. Við hljótum að vera sammála um það, ég og hv. þingmaður, að við viljum svo sannarlega koma skuldugum heimilum til aðstoðar, en okkur greinir á um leiðir, bæði hvernig við viljum gera það og hvort við viljum láta það yfir flesta ganga eða ekki, hvort við eigum að greiða niður skuldir ríkissjóðs að hluta skapist okkur slíkt rými og fáum við þetta fé geti það innheimst. En ég bendi líka á, það veit hv. þingmaður, að það er ekki í hendi að skatturinn innheimtist.

Sá fyrirvari sem ég fór yfir hjá mörgum aðilum snýr í rauninni að því að menn hafa áhyggjur af því hvað gerist ef hann innheimtist ekki. Ef við náum ekki í þær tekjur, hvað gerist þá? Hvernig sér hv. þingmaður það til dæmis fyrir sér að við munum fjármagna það takist okkur ekki að innheimta þá fjármuni á næsta ári og í framhaldinu, af því þetta er jú ekki framtíðarskattur?