143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera hér grein fyrir nefndaráliti 3. minni hluta um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014.

Gerðar hafa verið nokkrar breytingar á fjárlagafrumvarpinu á milli 2. og 3. umr. Þar má kannski helst til taka 20 milljarða sem koma inn og gera að verkum að heildarjöfnuður verður heldur hærri, nálgast núna milljarð.

Við höfum haldið því fram að okkur finnist þessi stefna um hallalaus fjárlög vera mjög metnaðarfull og vonum að þau áform gangi eftir, en höfum svo sem gert ágætlega grein fyrir því í nefndaráliti okkar að veikleikarnir eru margir og alls óvíst hvort ríkisreikningurinn verður hallalaus þegar upp verður staðið. Því er ástæða til að gæta aðhalds og vanda til verka.

Þessi nýi gjaldaliður, að upphæð rúmlega 20 milljarðar, sem er ætlaður í niðurfærslu á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimila — ég ætla aðeins að fjalla um hann hér. Áætlað er að verja 80 milljörðum í þessa aðgerð þannig að höfuðstóll verðtryggðra lána verði lækkaður og einnig á að veita lántakendum heimild til að greiða séreignarsparnað sinn inn á höfuðstól láns. Ríkið mun veita skattafslátt á móti og er áætlað að sú aðgerð kosti 70 milljarða, að hluta til fjármagnað úr ríkissjóði en síðan leggur fólk sjálft til sinn sparnað.

Önnur aðgerð felst í því að leigjendur og þeir sem ekki eru með húsnæðislán muni geta látið séreignarsparnað renna skattfrjálst í sérstakan húsnæðissparnað. Þetta er til að koma til móts við leigjendur, ef ég skil rétt. En nú er það ekkert endilega þannig að þeir sem eru á leigumarkaði eigi þann draum æðstan að kaupa sér hús. Við höfum rekið séreignarstefnu á Íslandi, gert lítið fyrir leigjendur og ég set stórt spurningarmerki við þetta. Ég vildi frekar sjá að komið væri til móts við leigjendur í stað þess að gera þeim kleift að setja séreignarsparnað sinn í sérstakan húsnæðissparnað, við vitum ekki einu sinni hvort leigjendur eru upp til hópa með séreignarsparnað eða fólk yfir höfuð.

Síðan munu verða einhver skattaúrræði fyrir þá sem hafa selt fasteignir eftir hrun og eru ekki lengur að borga af þeim lánum sem hækkuðu vegna efnahagshrunsins. Ég tek dæmi af fjölskyldumeðlim sem seldi húsið sitt rétt eftir hrun, tapaði á því, er svo búinn að vera á leigumarkaði og búinn að kaupa nýja íbúð. Eins og ég skil þetta mun viðkomandi fá einhver skattaleg úrræði og þá væntanlega ekki greiða skatt. En þegar ég spurði fjármálaráðuneytið hvað áætlað væri að þetta kostaði ríkið, þá er það atriði ekki alveg útfært enn þá. Því er mörgum spurningum ósvarað.

Hvað varðar tekjuöflunina er hugmyndin að fjármagna skuldaniðurfellinguna með skatti á fjármálastofnanir, og breytingin er sú að einnig á að leggja skatt á þær sem eru í slitameðferð. Við teljum alveg óljóst á þessari stundu hversu lengi þessi skattur getur skilað svo umfangsmiklum tekjum í ríkissjóð. Eins og við höfum bent á kemur fram í greinargerð frumvarps um tekjuaðgerðir til fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014 að gengið sé út frá þeirri forsendu að í lok árs 2015 verði slitameðferð föllnu bankanna að fullu lokið. Ekkert hefur komið fram í umræðunni sem bendir til þess að þær forsendur hafi breyst.

Eftir stendur þá spurningin um hvernig eigi að fjármagna aðgerð til fjögurra ára með skattstofni sem ekki er gert ráð fyrir að skili nægum tekjum nema í tvö ár. Hvað gerist þá ef þessi skattur er ekki lengur fyrir hendi eða þessar tekjur, hvernig á þá að fjármagna þessa niðurfellingu? Verður bara hætt í miðjum klíðum eða munu menn fara í að reyna að finna peningana annars staðar? Þá er einmitt stóra spurningin: Er það besta meðferð á almannafé að fara í þessar aðgerðir? Við höfum efasemdir um að svo sé.

Við teljum að varðandi það skattfé sem aflað er með tímabundnum skattstofni eins og bankaskattinum sé betra að verja því til verkefna sem spara ríkissjóði fé til langs tíma eða skila arði. Meðal slíkra verkefna eða aðgerða væri niðurgreiðsla opinberra skulda, sem er mjög mikilvægt mál, og fjárfestingar í atvinnulífi og innviðum samfélagsins. Þessi aðgerð verður ríkissjóði mjög dýr og virðist ekkert endilega hönnuð þannig að hún hjálpi þeim sem eiga í mestum vandræðum með að greiða af lánum sínum. En eins og ég segi eigum við eftir að sjá nánari útfærslur. Þá hefur maður áhyggjur af því að eftir sem áður verði verulegur greiðsluvandi heimila óleystur.

Síðan eru það efnahagsleg áhrif þessara aðgerða. Leiða má að því líkur að þær auki verðbólgu og setji þrýsting á krónuna. Og það sem mér finnst mjög mikilvægt, og 3. minni hluti bendir á, er að þessum aðgerðum fylgja í raun engar áætlanir um að taka á undirliggjandi vanda efnahagslífsins, sem eru forsendur síendurtekins forsendubrests fyrir heimili og fyrirtæki. Hér er ég nú að tala um gjaldmiðilinn okkar en við virðumst einhvern veginn aldrei vera tilbúin til að taka þá umræðu. Við erum ekki sammála þeim sem halda því fram að þessi endalausi sveigjanleiki krónunnar sé góður fyrir landið.

Við munum taka þessa umræðu þegar frumvörpin sem liggja til grundvallar þessari aðgerð verða lögð fram eftir áramót eða í vor. Í raun er alveg ótrúlegt að standa hér og vera að ræða nýjan fjárlagalið upp á 20 milljarða á einum eftirmiðdegi og án þess að ítarleg greining liggi fyrir. Þessi umræða heldur því áfram eftir áramót.

Við 3. umr. hafa orðið nokkrar breytingar á gjaldahliðinni, jákvæðar breytingar. Dregið hefur verið úr niðurskurði til Vinnumálastofnunar þannig að stofnunin getur áfram sinnt sínu mikilvæga hlutverki þar sem atvinnuleysi er því miður enn of mikið. Fjármagni var varið í verkefnið Brothættar byggðir til að styrkja byggðir á svæðum sem eiga undir högg að sækja. Það er mjög mikilvægt verkefni sem Byggðastofnun hefur umsjón með, mjög mikilvægt að það haldi áfram. Síðan eru þarna samkeppnissjóðir sem fá aukið framlag, myndlistarsjóður og hönnunarsjóður auk annarra verkefna sem 3. minni hluti styður. Síðan er fallið frá legugjöldum á sjúklinga og er það vel. Reyndar held ég að það hafi eiginlega aldrei verið ætlunin að leggja þessi gjöld á, algjörlega óútfærð hugmynd. Enginn virtist geta svarað því hver ætti að borga þessi gjöld og þá hversu mikið og hvernig ætti að innheimta þau og hvernig þetta ætti að vera.

Við höfum aðeins talað í þessari umræðu um fjárlög um vinnubrögðin og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði í ræðu sinni áðan að ákveðinn seinagangur hefði verið og baðst afsökunar á því; og ég virði það þegar fólk viðurkennir það sem betur mætti fara. Ég held að við séum alveg sammála um að vinnubrögðin verði betri næst, það verður auðveldara fyrir stjórnvöld að leggja fram fjárlagafrumvarp á nýju ári, ég hef svo sem ekki áhyggjur af því að við munum ekki bæta vinnubrögðin.

Þetta hefur verið mjög áhugaverð og skemmtileg vinna og virkilega gaman að sitja í hv. fjárlaganefnd með öllu því góða fólki sem þar er. Ég vil þakka nefndarmönnum fyrir samstarfið og sérstaklega vinkonum mínum í minni hlutanum sem ég hef átt mjög gott samstarf við og eins ritaranum okkar og starfsfólkinu.

Ég held að ég hafi þetta ekki lengra að sinni, ég held að ég sé búin að segja allt sem máli skiptir.