143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:51]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir ágæta ræðu. Það var ánægjulegt að heyra að hún benti á ýmsa jákvæða þætti sem eru í þessum breytingartillögum. Hún kom sérstaklega inn á eitt sem mig langar að fá að spyrja nánar út í, það snýr að skuldaleiðréttingu heimilanna.

Ef ég skildi hv. þingmann rétt er hún sammála því að rétt sé að leggja þessar álögur á bankastofnanir í slitameðferð, sækja fjármuni þangað, en er ósammála því að féð eigi að fara til þeirra sem urðu fyrir hinum svokallaða forsendubresti og voru með verðtryggð lán. Hv. þingmaður talaði um að betra væri að það færi í niðurfærslu vaxtagreiðslna ríkissjóðs.

Hæstiréttur dæmdi í málum er varðar gengistryggðu lánin. Það var mikið rætt á Alþingi í aðdraganda dómsins hvort ríkissjóður ætti að fara í þessar aðgerðir. Nú er ljóst varðandi það sem við ætlum að laga núna að fjárhæðin kemur úr bönkum landsins varðandi gengistryggðu lánin. Þá spyr ég: Ef staða þeirra sem voru með gengistryggð lán hefði ekki verið lagfærð með dómi Hæstaréttar, væri hv. þingmaður þeirrar skoðunar að taka ætti peninginn úr bönkunum en að það ætti ekki að fara í að lagfæra lánin heldur í að greiða niður vaxtatekjur ríkissjóðs?