143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:53]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það einu sinni þannig að efnahagshrun verður ekkert svo auðveldlega leiðrétt. Þess vegna hlýtur að vera mikilvægasta verkefni hverrar ríkisstjórnar að koma í veg fyrir efnahagshrun. Það er ekki þannig að bara þeir sem eru með verðtryggð lán hafi orðið fyrir forsendubresti. Öll þjóðin varð fyrir forsendubresti. Til er fólk sem var ekki einu sinni búið að kaupa sér íbúð á þessum tímapunkti, sem er búið að vera í leiguhúsnæði allan þennan tíma. Ég sé t.d. ekki hvaða skilaboð ríkisstjórnin er að senda til þeirra. Farið var í 110%-leiðina. Það er áhyggjuefni af hverju ekki fleiri en raun ber vitni hafa sótt um það hjá Íbúðalánasjóði.

Það er alveg rétt að þeir sem voru með gengistryggðu lánin fengu meira en aðrir, en, eins og ég segi, þetta er efnahagshrun sem bitnar illa á öllum en þó misilla á fólki.

Mér finnst ekki réttlætanlegt að taka 80 milljarða og dreifa þeim á heimilin, jafnvel kannski einhverja íbúa í Vesturbæ Reykjavíkur sem eiga töluvert mikið í húsum sínum, skulda kannski mikið en búa þó við þann lúxus að þeir munu alltaf geta selt húsin sín og að þau munu alltaf hækka í verði. Hins vegar skal ég alveg viðurkenna að það eru hópar sem setið hafa eftir. 110%-leiðin ætti t.d. að gilda líka fyrir lánsveðshópinn, það þarf að laga.

Við höldum að besta aðgerðin sé að laga grunninn, koma hér á stöðugu efnahagsumhverfi, lágum vöxtum til framtíðar og tryggja að ekki verði önnur gengisfelling, vegna þess að við getum búist við forsendubresti á nokkurra áratuga fresti. Þetta er ekki fyrsti forsendubresturinn. Þeir munu verða fleiri. Þá velti ég fyrir mér hvaða skilaboð ríkisstjórnin hefur sent með þessu: Við komum og reddum þessu. Við leiðréttum þetta eftir á.