143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem mér fannst nú ekkert sérstaklega sanngjörn á köflum, ég verð að viðurkenna það. Það er rétt að Framsóknarflokkurinn hefur öðrum flokkum fremur í aðdraganda síðustu kosninga talað um það að hann ætlaði að koma til móts við skuldug heimili. Hann lýsti því líka hvernig hann ætlaði að fara að því og reyndi eftir bestu getu að standa við þau loforð með útfærðri leið sem ég held að allir þeir sem eru í meiri hluta verði að standa fyrir. Það hefur enginn fullyrt, og ekki sá sem hér stendur, að það sé aðeins ein leið til að gera eitthvað fyrir heimilin. Mér fannst það ómálefnalegt, virðulegi forseti. Mér fannst líka einkar ómálefnalegt þegar hv. þingmaður fullyrti að við værum að pissa í skóinn okkar. Ég mundi nú vilja að hann útskýrði þau orð aðeins nánar. Mér fannst það heldur hátt reitt til höggs og ósanngjarnt af hv. þingmanni.