143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:06]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það má vera til útskýringar þá er ég ekki að halda því fram að hv. þingmaður ætli persónulega að pissa í skóinn sinn, heldur er þetta einfaldlega orðatiltæki sem oft er notað um skammsýni og það að horfa ekki fram á veginn. Þetta er orðatiltæki sem er notað til að lýsa skammgóðum vermi, einfaldlega eitthvað sem dugar skammt. Ég fór yfir það í ræðu minni að ég tel að taka þurfi á ákveðnum grunnvanda í íslensku samfélagi sem er verðlagið, sem er krónan, einhæft atvinnulíf til dæmis, við þurfum að skapa meiri útflutningstekjur, aga þarf í ríkisfjármálin, ná þarf stöðugleika í íslenskt efnahagslíf svo að verðbólga fari niður, svo að hægt sé að bæta kjör, svo að vextir fari niður. Það er stærsta hagsmunamálið.

Það veldur mér áhyggjum og þess vegna notaði ég orðatiltækið að pissa í skóinn sinn, sem er vel þekkt orðatiltæki, að fyrst engar aðgerðir, jafnvel þvert á móti, eru boðaðar sem snúa að því að reyna að koma á meiri stöðugleika í íslensku samfélagi þá muni þessar aðgerðir duga skammt, verða étnar upp af sömu verðbólgunni og er haldið fram að skapi nauðsynina fyrir þeim. Ég get notað fleiri orðatiltæki, til dæmis að bíta í skottið á sér, að við munum halda því áfram. Við erum einfaldlega með því að benda á það að fleiri leiðir eru til til að koma til móts við íslensk heimili og hjálpa íslenskum heimilum og fyrirtækjum, þá erum við að leggja áherslu á það að við höfum annars konar sýn á þessi mál en Framsóknarflokkurinn greinilega hefur.

Það er ágætt að hv. þingmaður viðurkennir það, en ég var hins vegar líka að lýsa ákveðinni pólitískri orðræðu sem mér finnst hafa farið fram í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum. Mér er það fullfrjálst og það er fullmálefnalegt að lýsa þeirri tilfinningu minni að mér finnst eins og hugtakið „heimili“ (Forseti hringir.) hafi verið eyrnamerkt einhverri ákveðinni tegund af aðgerðum og þeim sem séu á móti þeim aðgerðum séu einhvern veginn á móti heimilunum. En ég fagna því að hv. þingmaður vill ekki tala svoleiðis.