143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:11]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alveg eins og Framsóknarflokkurinn talaði öðrum fremur fyrir aðgerðum í þágu heimilanna veit ég að Björt framtíð talaði öðrum fremur fyrir bættri menningu hér í þingsal. Ég held að það sé sanngjarnt að ég fái að lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst orðatiltækið, ég átta mig á því að það er orðatiltæki, að pissa í skóinn sinn, ansi sterkt til orða tekið. Að mínu mati er í rauninni verið að segja að þær aðgerðir sem nú er farið í séu algjörlega ómögulegar. (Gripið fram í: Skammgóður vermir.) Það er þá ágætt að það komi fram, virðulegi forseti. Við erum sammála um margt. Við erum sammála um að við þurfum að koma böndum á verðbólguna, svo sannarlega. Við erum sammála um að við þurfum að koma á stöðugleika, en við erum þá ósammála um að koma þurfi til móts við þá sem urðu fyrir forsendubrestinum við hrunið árið 2008. Ég hef bent ítrekað á það hér að það var þó komið til móts við marga aðra þjóðfélagshópa sem lögðu fjármuni sína inn í banka, í peningamarkaðssjóði, í gengistryggð lán, en það á skilja þá sem eru með verðtryggð lán eftir á köldum klaka. Af hverju má ekki laga forsendubrestinn? Er það að pissa í skóinn sinn, virðulegi forseti? Ég held að ég geri mér fulla grein fyrir því hvað hv. þingmaður átti við.

En ég endurtek þá skoðun mína að mér fannst þetta ekki í þeim anda sem Björt framtíð kom fram með í vor þegar hún lýsti yfir ánægju sinni að það ætti að fara í einhverjar aðgerðir. En ég vona líka að menn taki tillit til þess að það verður að koma fram með einhverja eina stefnu. (Forseti hringir.) Það er það sem við höfum (Forseti hringir.) gert jafnvel þó að mögulega hefði verið hægt að fara í einhverjar aðrar.