143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við skulum aðeins minna okkur á um hvað við erum að ræða hérna. Við erum að ræða um að setja 20 milljarða úr ríkissjóði á næsta ári í ákveðnar aðgerðir og gera það í fjögur ár án þess að vita hvort við höfum tekjur fyrir því. Þetta eru 80 milljarðar. Það er gríðarlega mikill peningur. Gríðarlega mikilvægt er að við ræðum það hvort sá peningur komi að tilætluðu gagni og að við ræðum það líka hvernig hann gæti hugsanlega komið að meira gagni í þeim kringumstæðum sem við erum í.

Það er fullkomlega málefnalegt og í anda góðra stjórnmála að lýsa þeirri skoðun og rökstyðja það að svona stór og dýr aðgerð muni ekki skila tilætluðum árangri í þeirri efnahagsumgjörð sem við búum við. (HöskÞ: Ert þú eini dómarinn hvað …?) Þetta er skoðun okkar í Bjartri framtíð. Og það er eitt sem einkennir Alþingi að í þessum þingsal situr fólk með ólíkar skoðanir. Þegar ég fer í ræðustól eða við í Bjartri framtíð, svo ég fari yfir þessi grundvallaratriði, þá segjum við okkar skoðanir, svo segir hv. þingmaður sínar.

Það er okkar skoðun að svona dýr og umfangsmikil aðgerð muni vera skammgóður vermir í því efnahagsumhverfi sem við höfum búið við um áratugaskeið. Laga forsendubrest, er sagt. Við segjum: Lögum forsendurnar. Það er meginstefið í málflutningi okkar. Og meðan forsendurnar eru ekki lagaðar er það fullkomlega málefnalegt að nota vel þekkt orðatiltæki eins og að pissa í skóinn sinn ef menn ætla ekki að laga forsendurnar. (HöskÞ: Þú ert eini dómarinn. Hvað er málið …?) Ég er ekki í dómarasæti, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, ég er hér einn af þingmönnum, einn af 63, og nýti málfrelsi mitt til að segja álit mitt á boðuðum aðgerðum. 20 milljarðar úr ríkiskassanum núna á eftir og svo í þrjú skipti í viðbót, það er dýrt og mikilvægt er (Forseti hringir.) að við skoðum hvort þeir peningar nýtist vel eða ekki.