143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[14:23]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga frá efnahags- og viðskiptanefnd um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (skatthlutfall og fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns).

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 er boðað að miðþrep í tekjuskatti einstaklinga lækki úr 25,8% í 25% frá og með 1. janúar 2014 og hefur sú breyting þegar verið lögfest. Jafnframt hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að hún hyggist beita sér fyrir heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu í áföngum með einföldun að markmiði. Í ljósi stöðu kjaraviðræðna er í frumvarpi þessu lögð fram tillaga um aðra útfærslu á ofangreindri breytingu. Lagt er til að skatthlutfall í miðþrepi tekjuskatts einstaklinga verði 25,3%, jafnframt því að efri mörk lægsta þreps tekjuskatts hækki í 290 þús. kr. á mánuði frá og með 1. janúar 2014. Að teknu tilliti til hækkunar launavísitölu síðastliðna tólf mánuði hefðu mörkin að óbreyttu orðið 256 þús. kr. á mánuði. Áfram er stefnt að því að tekin verði frekari skref í átt til einföldunar skattkerfisins þegar við framlagningu frumvarps til fjárlaga 2015.

Hv. þingmenn Árni Páll Árnason, Steingrímur J. Sigfússon og Guðmundur Steingrímsson standa að flutningi málsins með fyrirvara.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt eins og það er á þskj. 488.