143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[14:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka nefndinni fyrir skjót viðbrögð. Hér erum við að ræða frumvarp sem á rætur sínar í viðræðum ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins, en ríkisstjórnin hefur átt í samskiptum við aðila vinnumarkaðarins undanfarnar vikur og mánuði. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur verið litið svo á að þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til með fjárlögum og öðrum aðgerðum sem nýlega hafa verið kynntar, og ég get þar sérstaklega nefnt aðgerðir til að lækka skuldir heimilanna, hafi margt verið gert til að liðka fyrir samningum.

Hins vegar hefur verið svo að ríkisstjórnin hefur ekki útilokað frekari aðkomu að gerð kjarasamninga enda lægi fyrir að aðilar væru að ná saman. Endanleg staðfesting á því að svo var barst ekki fyrr en eftir klukkan eitt í dag, en innan klukkutíma hafði þó nefndin komið saman til að fjalla um það frumvarp sem hér er komið á dagskrá á þinginu.

Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur nú verið brugðist fljótt og örugglega við kröfum um breyttar áherslur varðandi breytingar á tekjuskattslögum. Eins og sjá má af frumvarpinu er tekjuskattslækkunin í miðþrepi örlítið lægri en á móti kemur hækkun á tekjumörkum neðsta þrepsins.

Það kemur hér upp í umræðunni hvort ekki hafi komið til álita að hækka jafnframt persónuafsláttinn en það er aðgerð sem út frá ríkisfjármálum er mjög kostnaðarsöm. Hún er ekki heldur sérstaklega markviss vegna þess að hún gengur upp allan launastigann. Hún hefur ekki komið til álita af hálfu ríkisstjórnarinnar að þessu sinni.

Ég vil láta þess getið að í bréfi sem fór til aðila vinnumarkaðarins í dag og í yfirlýsingu sem nú hefur verið birt koma fram frekari aðgerðir sem ríkisstjórnin hyggst beita sér fyrir samhliða því frumvarpi sem nú er til umræðu. Þar er fyrst og fremst um að ræða aðgerðir til þess að halda aftur af verðbólgunni, aðgerðir til að halda aftur af gjaldskrárhækkunum, krónutölusköttum og -gjöldum næstu árin, enda haldi forsendur kjarasamninga að öðru leyti atvinnulífi aftur af launaskriði og hækkunum á vöru og þjónustu. Ríkisstjórnin hefur jafnframt lýst því yfir að hún muni beita sér fyrir því að fyrirtæki í ríkiseigu, þar með talin orkufyrirtæki, gæti ýtrasta aðhalds við gjaldskrárbreytingar og áfram verði unnið að umbótum í menntamálum, sérstaklega þeirra sem litla menntun hafa og í því efni verði haldið áfram góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.

Fleiri atriði koma fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, eins og um samskipti hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins um undirbúning næstu kjarasamninga að koma á fót fastanefnd, eins og lesa má í yfirlýsingunni sjálfri. En ég vil fyrst og fremst stíga hér upp til að lýsa mikilli ánægju með að hér virðast vera í fæðingu nýir kjarasamningar sem munu tryggja aukinn stöðugleika, eyða óvissu, en það er eitt helsta markmið ríkisstjórnarinnar að reyna að eyða óvissuþáttum þar sem óvissan ein og sér getur dregið úr fjárfestingu og athafnagleði í landinu. Þannig munu nýir kjarasamningar, sem vonandi verða staðfestir á næstunni, innan fárra vikna, vera einn hornsteinninn í mikilvægu nýju framfaraskeiði sem mun einkennast af vexti og stöðugleika. Ríkisstjórnin hefur lagt sitt af mörkum með hallalausum fjárlögum og langtímaáætlun um að halda aftur af verðbólgunni. Við höfum tækifæri núna þar sem krónan hefur verið stöðug og með samningum á þeim nótum sem virðast vera í fæðingu erum við komin á rétta braut.

Ég þakka nefndinni fyrir skjót viðbrögð, jafnframt þinginu öllu, öðrum þingflokkum fyrir að hafa sýnt því skilning að þingi skyldi ekki lokið í gær og að frestur skyldi gefinn til að láta á það reyna hvort það gæti hjálpað í þessu efni að koma inn með þetta frumvarp. Það skiptir alla aðila mjög miklu, þjóðfélagið allt.