143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[14:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi lægst launuðu hópana er það ánægjuefni að það virðast vera að takast samningar milli aðila vinnumarkaðarins um að þeir fái einmitt frekari kjarabætur en aðrir hópar. Það er ekki eingöngu hlutverk ríkisstjórnarinnar að sjá til þess að svo sé, það verða að takast samningar um kaup og kjör milli aðila vinnumarkaðarins í þeim efnum. En það hefur aldrei neitt annað staðið til en að eiga gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins, þar á meðal ASÍ, af núgildandi ríkisstjórn, og það er ágætt að hv. þingmaður fagni því að samstarfið skuli fara vel af stað við þessa aðila af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Það var öðru til að dreifa á síðasta kjörtímabili þegar hver höndin var upp á móti annarri meira eða minna ár eftir ár þar til upp úr sauð og stöðugleikasáttmálanum var sagt upp, hann yfirgefinn af þeim sem að honum stóðu.

Það er ekkert feimnismál fyrir þann sem hér stendur að lýsa því yfir að hann vilji eiga góð samskipti við aðila vinnumarkaðarins. Það er sérstaklega gert að umtalsefni í ríkisstjórnarsáttmálanum að skapa þurfi betri frið á vinnumarkaði, eyða óvissu, og til þess munu menn þurfa að teygja sig. Af okkar hálfu lá það alltaf fyrir að frekari aðgerðir en þær sem þegar höfðu verið kynntar kæmu þá einungis til greina að fyrir lægi að aðilarnir hefðu náð saman. Við fengum tilkynningu um það núna á milli kl. eitt og hálftvö í dag og við því er brugðist strax með framlagningu þessa frumvarps. Ekki er hægt að gefa skýrari yfirlýsingu um það af hálfu einnar ríkisstjórnar að hún sé tilbúin til að bregðast skjótt og örugglega við ef á þarf að halda til að tryggja stöðugleika í landinu og vinnufrið fyrir fólkið.