143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[14:50]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við stöndum að samþykkt þessa frumvarps vegna þess að það er þróun í rétta átt. Ræðan sem ég flutti hér áðan er nákvæmlega í anda breyttrar og betri umræðuhefðar vegna þess að hún snýst um efnisatriði mála, ekki hjóm, enga froðu og ekkert bull og engar lygar. Hún snýst um að fletta ofan af þeirri staðreynd að ríkisstjórnin sem við búum við í landinu hefur ákveðið að snúa af braut kjarajöfnuðar, auka misskiptingu, setja mestan hluta skattalækkana í hendur þeirra sem mest hafa á milli handanna, létta álögum af best stæðu fyrirtækjunum í landinu og svona mætti lengi telja. Ræðan byggir á efnislegri greiningu á aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar og meiri hlutans sem að baki hennar stendur. Það er nákvæmlega þannig sem umræður á Alþingi verða að vera. Þær verða að snúast um raunveruleikann, ekki eitthvert fals eða einhverja froðu.