143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[14:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ánægjuefni ef aðilar á vinnumarkaði eru að ná saman um kjarasamninga, stærstur hluti almenna vinnumarkaðarins, og almennt er það að sjálfsögðu fagnaðarefni að óvissa í þeim efnum víki. En auðvitað er stór hluti vinnumarkaðarins með lausa samninga, fram undan er opinberi vinnumarkaðurinn og sjálfsagt einhverjir hópar á hinum almenna vinnumarkaði. Mér býður þó svo í grun að nokkuð blendnar tilfinningar séu á bak við þessa samningagerð hjá býsna mörgum innan verkalýðshreyfingarinnar og meðal launafólks og einkanlega þeirra sem eru á lægstu kauptöxtunum.

Það er að sjálfsögðu ágætt ef um þetta semst þannig að 8 þús. kr. eða þar um bil komi í sérstaka krónutöluhækkun og að öðru leyti verði um 2,8% launahækkun að ræða almennt, sem er reyndar þó nokkuð undir verðbólgu. Ársverðbólga í gær, miðað við mælingar frá Hagstofunni, var 4,2%. Ég held því að allir verði að hafa hemil á gleði sinni gagnvart því verkefni sem forsvarsmenn stéttarfélaga eiga í vændum, að fara heim með þessa niðurstöðu og ætlast til þess að félagsmenn þeirra samþykki hana, almenna launahækkun verulega undir verðbólgu, eins og hún er að mælast þessi árin, og þó ekki meir sem lagt er í að reyna að hífa upp allra lægstu kauptaxtana í landinu þegar við bætist að hæstv. ríkisstjórn hefur að mínu mati sýnt alveg ótrúlega stífni í því að koma til móts við óskir verkalýðshreyfingarinnar og kannski Starfsgreinasambandsins sérstaklega. — Má ég spyrja, virðulegur forseti, er þetta ekki nógu mikilvægt til að fjármálaráðherra tolli í salnum eða hvað? Á ég kannski að beina máli mínu til forsætisráðherra, ætlar hann að hlaupa í skarðið og svara fyrir ríkisstjórnina?

(Forseti (EKG): Hæstv. forsætisráðherra er hér á mælendaskrá á eftir.)

Já, já, það er gott. Ég vil fá skýringar á því: Af hverju ríghélt ríkisstjórnin svo í útfærslu sína á tekjuskattslækkun á miðþrepi að við lá að samningarnir færu í sundur? Búið að kosta nokkrar nætur að reyna að þjarma þessu saman og ríkisstjórnin gefur þó ekki meira eftir en raun ber vitni.

Í grófum dráttum má segja, og það er að sjálfsögðu til bóta, að um 3/8 fimm milljarða tekjutaps ríkisins eru notaðir í að færa tekjumörkin milli fyrsta og annars þreps en meiri hlutinn, 5/8, er áfram notaður í hina flötu prósentulækkun á miðþrepi. Úr því að menn voru á annað borð opnir fyrir því að hreyfa þessu eitthvað, af hverju var þá ekki gengið lengra til móts við þá sem voru að reyna að gæta hagsmuna lágtekjufólks, tekjulægsta fólksins í landinu? Um það hafa átökin staðið á bak við tjöldin innan verkalýðshreyfingarinnar og á milli aðila vinnumarkaðarins.

Ég vil héðan úr ræðustól færa þeim þakkir sem reyndu þó að halda á lofti baráttunni fyrir tekjulægsta fólkið í landinu. En þeir eiga því miður á brattann að sækja gagnvart ýmsum félögum sínum, gagnvart viðsemjendum sínum og sérstaklega gagnvart ríkisstjórn Íslands. Þetta er veruleikinn úr Karphúsinu eins og ég þekki hann og veit hann bestan. Vita menn hvaða kauptaxta Starfsgreinasambandið var að reyna að hífa upp? Eru það ekki 194–196 þús. kr. eða svo? Og stór hluti samninganna, taxtanna, liggur þaðan og á bilinu upp í 215–220 þús. kr. Það er veruleikinn. Verið er að reyna að hífa þennan hryllilega lága botn upp með krónutöluhækkun, en auðvitað hefði það hjálpað mikið til ef skattkerfið hefði verið látið styðja við þá viðleitni með því að nota sem mest af þeim fjármunum sem ríkið er að afsala sér í skattalækkanir til að bæta frekar kaupmátt þessa hóps, en það er ekki gert.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á línuriti sem fylgir með frumvarpinu. Fátækleg voru nú gögnin og kannski skiljanlega því að þetta er allt gert á örfáum mínútum. En líti menn á línuritið sem er í greinargerð með frumvarpinu, þetta er ekki flókið mál og langlesið, stærð A4 og það er rétt rúmlega blaðsíða sem fer í allt málið. En þó er sett upp línurit, einhverjir hagir menn hafa sett upp línurit til að láta þetta allt saman líta vel út. Og við sjáum að svo lítur út sem talsverður tekjuauki komi fyrir ákveðinn hóp. En hvar byrjar línuritið, hvar byrjar það? Það byrjar í 3,5 milljónum, 290 þús. kr. í mánaðarlaun. Af hverju nær línuritið ekki lengra niður? Af því að það vill enginn sýna að það sem er fyrir neðan fær ekki neitt. Það er veruleikinn og það er snyrtilega falið með línuriti sem við fengum og settum með í greinargerðina, að allt þarna fyrir neðan fær ekki neitt. Um að gera að fela það. Byrja á 3,5 milljónum í árslaun, 290 þús. kr. á mánuði. Bíddu, hvernig voru taxtarnir sem ég nefndi áðan og verið er að reyna að hífa upp? 190 og eitthvað þúsund upp í 215–220 þús. kr.

Ég veit að afar blendnar tilfinningar eru og reyndar mikil óánægja víða innan verkalýðshreyfingarinnar og meðal þeirra sem sérstaklega voru að reyna að berjast fyrir hagsmunum þessa hóps, og hann ber því miður allt of lítið úr býtum.

Í grófum dráttum þýðir þetta miðað við álagninguna eins og hún er í ár að af fyrstu 106 þús. kr. eða þar um bil, sem yfir höfuð koma til skatts, verður engin lækkun. Miðað við skattleysismörkin í ár upp á 135 þús. kr. og upp í tekjumörkin milli lágþreps og milliþreps eins og þau stóðu núna í tæpum 241.500 kr., fær þessi hópur ekki neitt, færist auðvitað örlítið upp í krónum talið með verðlagsbreytingum milli ára en í aðalatriðum er bilið þarna.

Það jákvæða er að það fjölgar talsvert í þeim hópi sem greiðir þá eingöngu skatt á lægsta þrepi, greiðir eingöngu 22,9% tekjuskatt af launum sínum, 15–20 þúsund manns bætast við þau sirka 15 þúsund sem fyrir voru, en það sorglega er um leið … (Gripið fram í.) Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta svo ógeðfellt, herra forseti, þegar maður er að tala um mikið alvörumál, kjör tekjulægsta fólksins í landinu, þá glottir og smjattar formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, hérna í salnum og gefur manni ekki einu sinni frið til að ræða þessi mál. Og ekki var ég að ráðast á einn eða neinn heldur reyna að ræða þetta eins og þetta er út frá tölum og staðreyndum, en það má ekki einu sinni.

Það sorglega er í leiðinni að þetta sýnir okkur að yfir 30 þúsund manns á íslenska vinnumarkaðnum eru með svo lág laun að þeir ná ekki upp í milliþrep í skatti, um leið og hægt er í sjálfu sér að gleðjast yfir því að þessi breyting og sú hækkun fjárhæðarmarkanna, sem er þá orðið það eina jákvæða í þessu, kemur ákveðnum hópi til góða, en það er dapurleg birtingarmynd hinna lágu grunnlauna sem eru við lýði á Íslandi.

Skattkerfið á náttúrlega að hjálpa til í þessum efnum og styðja við lífskjör þess fólks. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra sem hélt áðan mjög hlýlega ræðu um það sem fyrri ríkisstjórn gerði í skattamálum og sagði réttilega að með þrepaskipta skattkerfinu og lágtekjuþrepinu sem tekið var upp sérstaklega hefði tekist að hlífa algerlega tekjulægsta fólkinu á Íslandi við skattahækkunum í kreppunni, og það er rétt og reyndar rúmlega það, því að tekjulægsti þriðjungur landsmanna hefur undanfarin þrjú ár borgað heldur lægra hlutfall heildartekna sinn í skatt en áður. Það er auðvitað góður árangur. Þannig notuðum við skattkerfið til að verja sérstaklega þann hóp, tekjulægstu launamennina og allan þorra þeirra sem reiða sig á bótakerfið um afkomu sína, því að þeir eru á þessu sama tekjubili.

Nú kemur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og notar þessar breytingar fyrri ríkisstjórnar en því miður sem rök fyrir því að gera núna ekkert fyrir þennan hóp, og ég er því ósammála að þannig sé að málum staðið. Ég satt best að segja skil ekki af hverju menn notuðu ekki, þó ekki væri nema örlítið af þessum 5 milljörðum til þess að lækka líka lágtekjuþrepið um núll komma eitt, tvö, þrjú prósent. Það hefði strax litið betur út og tiltölulega einfalt að útfæra það. Það er eitthvað þarna á ferðinni, held ég, meira en bara það sem snýr að núinu. Skyldi það vera það að hæstv. fjármálaráðherra, Sjálfstæðisflokkurinn, er með í undirbúningi að fletja skattkerfið út aftur og fara niður í tvö þrep kannski í fyrri áfanga? Og vissulega er sjálfsagt draumur margra að fara síðan alla leið að lokum í eitt skattþrep, eina prósentu á alla, þannig að tekjuhæstu hópar landsins fái aftur gríðarlega skattalækkun.

Núverandi kerfi er að sjálfsögðu alveg þokkalega prógressíft, og mikil ósköp borið saman við það sem var. En þó er það þannig að það er ekki nema 8,9 prósentustiga munur á tekjuskattinum sem lágtekjufólk og tekjuhæsta fólkið borgar. Það eru 22,9% og síðan 31,8% sem tekjuhæsti hópurinn borgar af laununum ofan við milliþrepsmörkin, það er nú ekki meira. Ef eitthvað væri mætti gagnrýna okkur fyrir að hafa ekki haft þetta enn þá prógressífara og það vildum við auðvitað. Hugur manns stóð til þess að reyna að lækka prósentuna í lægsta þrepinu og það er það sem á að stefna að, ekki fletja út kerfið, ekki færa hátekjufólki stórkostlegar skattalækkanir aftur. Muna menn ekki það sem gert var í þenslunni á árunum 2003–2007 þegar staðið var við hin glórulausu kosningaloforð um að fella hátekjuskattinn niður, sem var nú svo sem ekki neitt neitt, 6–8% ofan á allra, allra hæstu launin? Og það var gert á sama tíma og ofurlaunin héldu innreið síðan á Íslandi sem aldrei fyrr.

Tekjuhæsti maður Íslands 2007 borgaði 70 millj. kr. minna í skatt en hann hefði gert vegna þess að búið var að fella hátekjuþrepið niður. Þegar einstaklingar voru með tekjur á þáverandi verðlagi upp undir 1 milljarð kr. Stórkostleg gjöf til þeirra frá hægri stjórninni sem flatti út skattkerfið á því kjörtímabili.

Ég verð því að segja að það hversu stíf hæstv. ríkisstjórn, og sérstaklega væntanlega fjármála- og efnahagsráðherra, hefur verið í þessu máli, setur að mér ónotahroll um að það kunni að tengjast áformum inn í framtíðina, vegna þess að ef svo væri ekki hefði maður haldið að menn væru sveigjanlegri gagnvart því að koma til móts við mjög réttmætar kröfur verkalýðshreyfingarinnar um að láta skattkerfisbreytingarnar styðja betur við kaupmátt tekjulægsta fólksins. En það er sem sagt ekki gert nema að mjög litlu leyti.

Aðstæðurnar hér eru vissulega sérstakar, að sjálfsögðu. Séu að nást samningar er það jákvætt og maður vill greiða götu þess. Frumvarpið er þrátt fyrir allt örlítið skárra, þetta er örlítið til bóta frá því sem var reyndar lögfest hér í gær, svo fyndið er þetta nú, og síðan hefur Alþingi setið á vakt að bíða eftir því hvort ekki eigi að breyta sólarhringsgamalli löggjöf, og það er núna að verða niðurstaðan. En þetta er þó í rétta átt og í því ljósi mun ég styðja þetta, en það er með þessum sterka fyrirvara, og það er alls ekki vegna þess að ég sé sáttur við þessa niðurstöðu, því fer í raun mjög fjarri. Ég er eiginlega hryggur yfir því að ekki skuli vera hægt að ná saman um eitthvað betri blöndu, meiri málamiðlun.

Ég skil svo sem þau sjónarmið að mönnum finnist sumum „dýrt“ að taka þetta allt í beina hækkun persónufrádráttar, en það má þó segja að það er mjög sambærileg aðgerð og við krónutöluhækkun í kjarasamningum og skilar auðvitað mestu til þeirra sem minnst fá, en hún skilar öllum. Það má því líka glíma við það að ná sambærilegum markmiðum til dæmis með því að lækka prósentuna á lágtekjuþrepinu og færa upp fjárhæðarmörkin. Ef ég hefði mátt ráða hefði ég notað alla 5 milljarðana í það, að mínu mati hefði besta dreifingin komið út úr því þegar það er svo keyrt hversu hátt hlutfall launamenn borga að endingu í skatt. Og það er það sem skiptir máli, þ.e. kúrfan og hvar skurðpunktar hennar eru. En ég verð að segja að það er frekar dapurlegt að þurfa að styðjast við gögn sem virðast vera sett fram með það alveg sérstaklega í huga að fela þá döpru staðreynd að með því að byrja uppi í miðjum tekjuskalanum eða talsvert langt uppi í tekjuskalanum fær tekjulægsti hópurinn ekki neitt út úr þessu.