143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Skattstefna Pírata hefur ekki verið útfærð að neinu sérstöku leyti en grunnmarkmiðið þar er gegnsæi þannig að ef við horfum á þessa breytingu sem er verið að leggja til núna með þessum lögum, og eins og rætt var um í nefndinni, eru það samningar milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins sem er verið að innleiða í lög. Þetta er sent utan úr bæ inn á þing og svo á að hraða því í gegn til þess að aðilar vinnumarkaðarins geti náð sátt um kjarasamninga. Það er það sem er í gangi hérna í dag.

Það hvernig þeir 5 milljarðar sem um ræðir leggjast á mismunandi tekjuhópa þýðir að þeir sem eru undir 280 þús. kr. á mánuði fá ekki neitt af þessum 5 milljörðum í sinn hlut. Þá skulum við hafa í huga að við erum að tala um fólk frá lágtekjumörkunum sem eru um 190 þús. kr. og upp í þessi 280 þús. kr., það fólk fær ekkert.

Aftur á móti rís þetta línurit hérna mjög skarpt upp og svo jafnast það út. Það rís mjög skarpt upp af þeim sem eru með 295 þús. kr. á mánuði að meðaltali. Svo jafnast það út til þeirra sem eru með 650 þús. kr. á mánuði og þá fer það að leggjast þyngra á þá sem eru með yfir 650 þús. kr. á mánuði. Þessir 5 milljarðar fara í þessar breytingar.

Í allri þessari skattaumræðu sjáum við þær breytingar sem eiga sér stað, auðlegðarskattur er farinn, gjöld eins og nefskattar eða önnur gjöld sem eru lögð sérstaklega á sérstaka málaflokka, eins og til menntamála og Ríkisútvarpsins, eru öll tekin í ríkissjóð. Eins og oft hefur komið fram í umræðu á Alþingi eru þetta gjöld eða skattar sem fara flatir þannig að við sjáum tilhneiginguna sem er sú að fletja skatta. Það er skiljanlegt enda er það stefna Sjálfstæðisflokksins og kannski að einhverju leyti Framsóknarflokksins líka. Hæstv. forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, mun tala á eftir mér og kannski útskýra nánar hvort það sé líka stefna Framsóknarflokksins að fletja skatta. Það er alveg ljóst að það er stefna Sjálfstæðisflokksins að fletja skatta meira.

Ef ég kem inn á stefnu Pírata í þessum málum, um meira gegnsæi, er alveg ljóst að þrepaskipt skattkerfi, eins gott og það er, er ógegnsætt fyrir þá sem eru á þessu þrepi. Það veit ekki alveg hver skiptingin er, ef það vinnur örlítið meira, ef það fær örlítið meira hér eða þar borgar það kannski meiri skatta. Þetta er galli. Ég veit ekki lausnina á vandamálinu. Sjálfstæðismenn virðast ætla að afnema þessi þrep, a.m.k. í þrepum, taka það hægt og rólega, en ég hef spurt hvernig þeir geti tryggt ákveðið grunnprinsipp.

Margir sjálfstæðismenn vilja alveg flatan tekjuskatt. Ókei, en það eru samt sem áður sjálfstæðismenn, ég hef talað við þá í þinginu, sem vilja ekki alveg flatan tekjuskatt. Í því ljósi langar mig að vitna í föður kapítalismans, Adam Smith, og það sem hann sagði um skattlagningu, hvort hún ætti að vera flöt eða leggjast hlutfallslega örlítið þyngra á þá sem eru ríkari.

Ég vitna þá í hann, með leyfi forseta:

„It is not very unreasonable that the rich should contribute to the public expense, not only in proportion to their revenue, but something more than …“

(Forseti (EKG): Forseti treystir því að hv. þingmaður muni nú þýða þennan enska texta.)

Forseti getur treyst því. Þetta er í þingsköpum, við þekkjum þau vel, báðir tveir. Mig minnir að það sé 91. gr. Man forseti það? Nei, en við þekkjum báðir þingsköpin.

Ég hef þennan lestur aftur og svo mun ég að sjálfsögðu annaðhvort þýða hann eða endursegja, eins og segir í þingsköpum.

Adam Smith, svo ég vitni aftur í hann, faðir kapítalismans, sagði, með leyfi forseta:

„It is not very unreasonable that the rich should contribute to the public expense, not only in proportion to their revenue, but something more than in that proportion.“

Það sem Adam Smith er að segja þarna er að tekjuskattur skuli ekki vera flatur, að tekjuskattinn eigi að leggjast hlutfallslega þyngra á þá sem eru ríkari, þá sem hafa hærri tekjurnar. Ég veit að þetta er ekki hugmyndafræði allra sjálfstæðismanna en ég vildi samt benda á að þetta er hugmyndafræði Adams Smiths. Menn ættu kannski að lesa sér til um það í fræðum Adams Smiths hvernig hann réttlætir þetta, hver hugmyndafræðin er, á hvaða grunni hann kemst að þessari niðurstöðu.

Við sjáum að það á að fletja skatta, í þessu tilfelli með þessari sérstöku lagabreytingu sem kemur utan úr bæ eftir samninga aðila vinnumarkaðarins til að ná kjarasamningum. Þeir sem eiga að njóta góðs af þessari breytingu eru þeir sem eru með meira en 280 þús. kr. og upp að 650 þús. kr. Þeir sem eru með lægri tekjur, frá 190 þús. kr. og upp í þessi 280 þús. kr. fá ekkert. Svo leggst byrðin örlítið þyngra á þá sem eru með meira en 650 þús. kr. þannig að vitaskuld er verið að gera þetta aðeins brattara. Eins og hæstv. Bjarni Benediktsson nefndi áðan er verið að jafna þetta, þetta er fyrir þá sem eru með millitekjur.

Ef það á að fara í að fletja út skattkerfið og á sama tíma gera það gegnsærra — ég veit ekki hver rétt útfærsla á þessu væri en ég vil bara skilja það eftir í hugum landsmanna hvað þeim sjálfum finnst sanngjarnt, hvort þá ætti ekki að hækka persónuafsláttinn, hækka þau mörk þar sem tekjuskattur byrjar þannig að þeir sem njóta mest þess tekjuafsláttar séu þeir sem minnstar tekjur hafa. Mest af tekjum þeirra fer í nauðsynjar. Þeir hafa rosalega lítið eftir. Ef menn vilja virkilega geta tekið afstöðu til þess, ekki bara vitræna afstöðu heldur tilfinningalega afstöðu og hafa fundið það á eigin skinni, prófið þá að eyða aðeins minna, enda á því að þurfa að passa upp á hvern þúsundkall og svo kannski hvern fimmhundruðkall og hundraðkall. Þetta væri mjög óvitlaus tilraun. Það er tvennt sem græðist á þessu, fólk getur lagt örlítið til hliðar, sparað og safnað í smásjóð á sama tíma og það fær að kynnast því hvernig er að lifa við mjög þröngan kost. Ég vil skilja landsmenn eftir með þetta og það hvernig þetta lagafrumvarp og hin eilífa skattabarátta milli vinstri og hægri spilast fram í þinginu.