143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:26]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs til að greiða fyrir þingstörfum. Á undanförnum dögum höfum við hvað eftir annað, daglega, horft upp á keppni formanns þingflokks Samfylkingarinnar, hv. þingmanns, og hv. þingmanns, formanns Samfylkingarinnar, horft upp á þá keppa um það hvor geti verið með meiri skæting, sérstaklega í garð stjórnvalda, í von um að koma því í kvöldfréttir og vekja athygli á sjálfum sér. Þannig birtast þessir tveir hv. þingmenn hér aftur og aftur eins og millistríðsárasósíalistar hvor á sínum ölkassanum að öskrast á um hvor sé meiri byltingarsinni.

Þetta er algjörlega óþörf umræða og eins og bent hefur verið á fyrr í þessari umræðu ekki til þess fallin að leiða okkur að bestu niðurstöðunni. Hér er um að ræða breytingar sem eru til bóta fyrir alla hópa samfélagsins. Erindi mitt í ræðustól að þessu sinni er að setja hlutina í samhengi, benda mönnum á að það sé óþarfi að koma hér upp hver á fætur öðrum til að reyna að sanna sig með því að öskra og steyta hnefann í allar áttir.

Setjum það aðeins í samhengi hvað er að gerast hér og hvers vegna þingmenn geta bara leyft sér almennt að vera tiltölulega sáttir og fara að huga að jólunum. Hér eru að nást kjarasamningar sem munu leggja grunn að stöðugleika og raunverulegri kaupmáttaraukningu fyrir alla tekjuhópa á næstu árum. Það er líka verið að ráðast í aðgerðir í þágu skuldsettra heimila sem munu skipta sköpum fyrir tugþúsundir íslenskra heimila og munu hafa jákvæð áhrif á þróun efnahagsmála til viðbótar við þann stöðugleika sem kjarasamningarnir vonandi veita.

Þessi niðurstaða í kjarasamningunum nú verður til með aðkomu stjórnvalda sem er líka munur frá því sem við höfum séð á undanförnum árum og er þá væntanlega og vonandi vísbending um að áfram muni eiga sér stað uppbyggilegt samstarf og samráð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Það er unnið að heildarlausn á vandanum sem menn standa frammi fyrir í húsnæðiskerfinu til að bregðast við því ófremdarástandi sem skapast hefur þar á undanförnum árum. Hér er í dag verið að klára hallalaus fjárlög sem fela í sér — ef frá er talinn sá gúmmítékki sem var kallaður fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar — verulega aukningu framlaga til allra mikilvægustu málaflokka, ekki hvað síst til velferðarmálanna. Þar er meðal annars um að ræða mestu fjárveitingar til félagsmála sem nokkurn tímann hafa sést, á sama tíma og menn ná hallalausum fjárlögum, og tekjur aukast á flestum sviðum, m.a. í sjávarútvegi þar sem menn horfa nú fram á mestu tekjur af sjávarútvegi sem nokkurn tíma hafa skilað sér í sögu landsins.

Með öðrum orðum, til að taka þetta allt saman, stefnir í að árið 2014 verði betra en öll undanfarin ár fyrir alla hópa samfélagsins, þar með talið alla tekjuhópa. Þetta ætti að vera til þess fallið að gleðja menn og senda þá tiltölulega sátta inn í jólahaldið.

Jú, það er verið að gera hér ákveðnar breytingar á skattkerfinu til að ýta undir verðmætasköpun og reyna að koma sífellt fleirum í hærri tekjuhópa í stað þess að búa til fátæktargildrur, fyrirkomulag sem heldur fólki í lægstu tekjuhópunum. Þetta er það sem menn hafa verið að gera annars staðar á Norðurlöndum — ég veit að íslenskir jafnaðarmenn líta töluvert þangað — þar hafa menn endurskoðað skattkerfið til að innleiða aftur jákvæða hvata og koma sem flestum úr lægstu tekjuhópunum og í millitekjuhópa. Það hefur skipt sköpum við að menn næðu sér efnahagslega á strik í þeim löndum.

Tökum þetta nú saman, virðulegi forseti, því að ég ætla ekki að verja löngum tíma í ræðuhöld hér: Það er verið að ráðast í gríðarlega umfangsmiklar aðgerðir í þágu skuldsettra heimila. Það er verið að gera klára kjarasamninga sem munu að öllum líkindum tryggja stöðugleika og leggja grunn að auknum hagvexti á næstu árum og bæta kjör allra tekjuhópa til næstu ára. Við erum að afgreiða hallalaus fjárlög með verulegri aukningu framlaga til velferðarmálanna, heilbrigðismálanna, félagsmálanna og auka tekjur ríkissjóðs á ýmsum sviðum.

Virðulegur forseti. Ég vildi bara fara stuttlega yfir þetta til að benda þingmönnum á að í dag er ekki dagur til að æsa sig eða öskra og steyta hnefann í allar áttir. Í dag er dagur til þess að gleðjast yfir þeim árangri sem er að nást og ég vona að þingmenn stjórnarandstöðu finni það hjá sér líka að það megi gleðjast þegar hlutirnir eru að þróast í rétta átt en upplifi það ekki þannig að þegar hlutir þróast í rétta átt sé það á einhvern hátt ógnun við stjórnarandstöðuna og þess vegna þurfi menn að fara í millistríðsáraræðuhöldin. Það er ekki svo, við skulum nýta þennan árangur sem er að nást núna til að leggja grunn að betra samstarfi stjórnarmeirihluta og minni hluta á næstu árum við það að halda áfram að byggja undir þennan árangur sem nú er farinn af stað.