143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gleðst með hæstv. forsætisráðherra. Ég vil gleðjast með honum yfir því að hann felldi tillögur Samfylkingarinnar um hækkun miðjuþrepsins í tekjuskatti í gær en verður hér á eftir píndur til þess að samþykkja slíka hækkun fyrir tilverknað afla sem hann hefur blessunarlega ekki stjórn á. Ég mun fagna því.

Hæstv. forsætisráðherra getur ekki flutt hér yfirlætisfullar ræður og breitt þar með yfir þá staðreynd að hann hefur sjálfur hvatt til hækkunar á persónuafslætti en kemur þeirri tillögu ekki í gegn hjá samstarfsflokknum. Hann hefur sjálfur sagt að skynsamlegt sé að hækka persónuafslátt. (Gripið fram í.) Við vitum að það væri besta leiðin núna. Í staðinn bögglast hann hér áfram við að lækka skatt á ríkustu 10% þjóðarinnar um 3.500 kr. og segir við tekjulægstu 10%: Þið fáið ekki neitt. (Gripið fram í.) Það er afleiðingin af stefnumörkun ráðherrans. (Gripið fram í.) Hann lækkar skatta á hæst launaða fólkið og ekkert kemur í hlut þeirra sem minnst hafa á milli handanna. Það er niðurstaðan sem hann stendur frammi fyrir. Hann virðist hafa jafnlitla stjórn á samstarfsflokknum og hann hefur á aðilum vinnumarkaðarins. Það er út af fyrir gleðiefni þegar aðilar vinnumarkaðarins eiga í hlut, en það er áhyggjuefni fyrir kjósendur Framsóknarflokksins sem sumir hverjir halda, enn þá alla vega, að þeir hafi kosið félagshyggjuflokk í síðustu kosningum.