143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það leit ekki byrlega út með kjarasamninga vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar vegna þess að hún klúðraði því að halda aftur af verðlagshækkunum, hún gengur ekki einu sinni alla leiðina í því efni núna með yfirlýsingu sinni, og vegna þess að hún mætti ekki aðilum vinnumarkaðarins. Það er mjög athyglisvert ef hæstv. forsætisráðherra hefur ekki heyrt af þeirri ósk aðila vinnumarkaðarins að ríkið kæmi að málum með því að hækka persónuafsláttinn í þessum kjarasamningum. Það eru þær heimildir sem ég hef frá verkalýðshreyfingunni að sú ósk hafi beinlínis verið borin fram við ríkisstjórnina. Hafði enginn fyrir því að tala við hæstv. forsætisráðherra? Hafnaði fjármálaráðherrann þessu bara einn og óstuddur? Spurði hann aldrei forsætisráðherra?

Staðreynd málsins er sú að til þess að ná sameiginlegri niðurstöðu núna var afstaða aðila vinnumarkaðarins að annars vegar þyrfti að koma til það sem við erum að fara að samþykkja hér, sem er viðsnúningur á dagsgamalli samþykkt þessarar ríkisstjórnar, þ.e. að hækka neðra þrepið í millitekjuskatti, og hins vegar þyrfti að koma 1 þús. kr. hækkun á persónufrádrætti til að lægst launaða fólkið fengi eitthvað. Þessu hafnaði ríkisstjórnin samkvæmt þeim heimildum sem ég hef.

Það verður athyglisvert að heyra frá hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi aldrei verið spurður út í þetta. Ef hann var hins vegar spurður út í þetta, hvernig gat hann þá, hafandi sjálfur sagt að hækkun persónufrádráttar væri skynsamleg, samþykkt að fallast ekki á þessa kröfu?

Virðulegi forseti. Ég gleðst yfir því að hægt sé að koma vitinu fyrir hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnina og að hægt sé að vinda ofan af öfugþróun hennar í skattkerfismálum. Þó að við náum ekki fullum sigri í dag gleðst ég yfir þeim áfangasigri sem við náum hér á eftir þegar hæstv. forsætisráðherra greiðir atkvæði með tillögum Samfylkingarinnar um hækkun neðra þrepsins í millitekjuskatti.