143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:55]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir ræðuna. Ég skal viðurkenna að ræða hennar var mun málefnalegri en ýmislegt annað sem hefur komið hér fram fyrr í dag frá fulltrúum Samfylkingarinnar. Það er þakkarvert.

Það er mikilvægt að hafa í huga að hér er um aðfarasamning að ræða, eins og menn hafa kallað hann, til stutts tíma og það liggur fyrir vilji frá hendi ríkisstjórnarinnar og aðilum vinnumarkaðarins til að setjast niður og ræða ýmsa grundvallarþætti til að byggja upp framtíðarstöðugleika. Ég er sérstaklega ánægð með að þar undir eru líka þættir sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega í ræðu sinni. Ég tek undir áhyggjur hennar af því að við horfum upp á vinnandi fólk í þeirri stöðu að eiga í erfiðleikum með að borga af húsnæði. Þar er komið inn á framtíðarskipan húsnæðismála. Ég held að það sé grundvallaratriði að við hugum að því. Ég hef haft verulegar áhyggjur eftir að hafa séð fréttir undanfarnar vikur og mánuði af erfiðri stöðu t.d. barnafjölskyldna, einstæðra foreldra, einstæðra karla, fólks sem er í vinnu.

Síðan vil ég líka nefna það sem snýr að mér, mótun nýrrar vinnumarkaðsstefnu. Ég held að þar séu virkilega tækifæri til að gera góða hluti. Síðan hefur hæstv. fjármálaráðherra verið að huga að skattkerfisbreytingum og ýmsu öðru sem kemur til góða. Ég vona svo sannarlega að við getum unnið þetta í góðri samstöðu og samvinnu við stjórnarandstöðuna.