143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:59]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar skuldaleiðréttinguna þá er mjög mikilvægt að hafa það í huga að hún er stór hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda til að taka á skuldavanda heimilanna en hún er sannarlega ekki eini þátturinn í þeirri aðgerðaáætlun. Mótun nýrrar húsnæðisstefnu eða hvernig við ætlum að hafa húsnæðismál til framtíðar er hluti af því líka.

Ég hef lagt mjög mikla áherslu á að það sem kemur út úr þeirri vinnu varði öll heimili landsins óháð því hvaða búsetukost þau velja, að það verði ekki þannig að við beinum öllum út í það að kaupa og heldur ekki öllum út í það að leigja heldur hafi fólk möguleika á því að velja. Ég tel einmitt að það sé mjög mikilvægt að við náum að byggja hér upp virkari leigumarkað og að sama skapi að fólk sem ákveður að kaupa sér húsnæði búi við meira öryggi. Ég held að það sé enginn ágreiningur milli mín og hv. þingmanns hvað það varðar. Í samtölum mínum við þingmenn virðumst við í raun og veru öll vera að huga að þessu. Það er því mikilvægt að út úr þessari vinnu komi skilgreining á hvernig við ætlum að taka á félagslega þættinum í húsnæðiskerfi okkar.

Ég hef t.d. haft áhyggjur af því hvernig sveitarfélögin hafa skilgreint hlutverk sitt hvað varðar að tryggja fólki félagslegt húsnæði. Eitt af því sem þarf að fara betur yfir er hvort það sé nægilega skýrt í lögum að sveitarfélögum sé skylt að tryggja fólki, sem hefur enga aðra möguleika og er í erfiðri stöðu, húsnæði. Því miður virðast menn hafa túlkað frjálslega hvað löggjafinn vill með því.