143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[16:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil fyrst segja að mér finnst bagalegt í þessari umræðu, sem er ekki löng heldur tiltölulega stutt um stórt mál, að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra séu ekki viðstaddir. Ég sé að hæstv. fjármálaráðherra gengur nú í salinn en ég hefði gjarnan viljað eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra vegna ræðu hans áðan.

Breytingar á skattkerfinu yfirleitt, skattkerfismál og skattamál, eru stórpólitískt mál í sjálfu sér og það er eðlilegt að í slíkum málum fari fram ítarleg umræða um áherslur stjórnmálaflokkanna. Auðvitað verður að viðurkennast að það mál sem hér kemur inn kemur inn við sérstakar aðstæður þegar þingi var í raun að ljúka og er liður í því að tryggja að samningar á almennum vinnumarkaði geti náðst. Ég get tekið undir það sem hér hefur verið sagt um það mál, það er ánægjuefni og það skiptir okkur öll máli að það náist samningar sem tryggja stöðugleika til nokkurs tíma. Þess vegna er eðlilegt að þessi ríkisstjórn geri eins og svo margar á undan henni hafa gert, þ.e. leggi eitthvað af mörkum til að slíkir samningar geti náðst. Það er ávinningur af því fyrir allt efnahagslífið að tryggja stöðugleika og eyða óvissu sem sannarlega fylgir því ástandi þegar samningar eru lausir, ég tala nú ekki um ef deilur um kjaramálin eru langvinnar og erfitt að ná samningum.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Steingríms Sigfússonar sem á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd stöndum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að þessu máli og viljum gjarnan greiða götu þess. Við höfum átt ágætt samstarf og samskipti við stjórnarmeirihlutann í því efni en við höfum vissulega ákveðna fyrirvara á þeirri útfærslu sem hér er farin.

Hæstv. forsætisráðherra talaði um það í sinni ræðu að menn ættu á þessum tímamótum að gleðjast. Að sjálfsögðu á að gleðjast yfir því sem vel gengur. Við gerum það. Hæstv. forsætisráðherra hefði kannski líka mátt segja að hann gleddist yfir því góða búi sem hann tók við á miðju ári. Það er einmitt sá árangur sem náðist í efnahagsmálum og ríkisfjármálum á liðnu kjörtímabili sem tryggir þann árangur sem núverandi hæstv. ríkisstjórn er að gleðjast yfir vegna hallalauss fjárlagafrumvarps á árinu 2014. Það hefði ekki verið hægt ef ekki hefði verið markvisst tekið á þeim mikla halla á ríkisfjármálunum sem blasti við í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og síðasta ríkisstjórn fékk í fangið og glímdi við á öllu síðasta kjörtímabili, að ná niður halla ríkissjóðs úr yfir 200 milljörðum niður í kannski 20 milljarða á þessu ári. Það er geysilega mikill árangur og á þeim árangri byggir núverandi hæstv. ríkisstjórn og tryggir að hún getur lagt fram frumvarp um hallalaus fjárlög.

Hæstv. forsætisráðherra sagði líka í ræðu sinni að hjá ríkisstjórn síðasta kjörtímabils hefði niðurstaðan verið sú að bæta sífellt skuldum á ríkissjóð. Á þetta verður að horfa í því samhengi sem ég nefndi, að hallinn á ríkissjóði var yfir 200 milljarðar kr. og hann hefur náðst niður á þessu ári í um 20 milljarða og á næsta ári verður hann vonandi hallalaus, ef fjárlögin ganga upp.

Það sem við höfum haft mestar athugasemdir við eru þau megineinkenni þessara skattbreytinga og hvernig þær koma út fyrir einstaka hópa. Hér hefur talsvert verið rætt um hvort hækka hefði átt persónuafsláttinn. Ég get tekið undir með hæstv. fjármálaráðherra þegar hann sagði áðan í ræðu sinni að hækkun persónuafsláttarins væri dýr og ómarkviss aðgerð. Ég held að það verði að horfa á þetta þannig að hækkun persónuafsláttarins geti vel komið til álita, sérstaklega ef svigrúmið til skattalækkunar almennt er mikið og ef efnahagslegar aðstæður eru til staðar. Þá nýtist lækkun persónuafsláttarins hlutfallslega best þeim sem hafa lægstar tekjur Við þær aðstæður sem núna eru, að svigrúmið er ekkert óskaplega mikið og það er brothætt ástand í efnahagsmálum okkar, er ég þeirrar skoðunar að það sé markvissara að beina því svigrúmi sem þrátt fyrir allt er í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár, upp á 5 milljarða, að tekjulægstu hópunum. Þess vegna er það einmitt hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími Sigfússyni, í greinargerð með þessu frumvarpi þar sem birt er sérstakt línurit sem sýnir hvernig tekjuskattslækkunin kemur við einstaka tekjuhópa hefði þurft að sýna það niður tekjuskalann, líka fyrir neðan 3,3 millj. kr. á ári sem er um 290 þús. á mánuði og til að sjá hvernig það hefði þá komið út fyrir allra lægstu tekjuhópana. Sú mynd blasir auðvitað við að þeir hópar fá ekki út úr þessari tekjuskattslækkun.

Það er líka rétt að halda því til haga að ýmsir í verkalýðshreyfingunni, sérstaklega Starfsgreinasambandið sem berst fyrir þá sem hafa allra lægstu launin, vildu hafa annan svip á þessari skattaaðgerð þannig að meira færi í þágu þeirra sem hafa lægstu launin. Þetta er sá fyrirvari sem við höfum á þessu máli. Við erum sammála því að þetta mál fái hér hraða meðferð í meðförum Alþingis og verði að lögum. Við teljum að það sé farið í rétta átt með þessari breytingu en við hefðum gjarnan viljað sjá þessum fjármunum markvissar ráðstafað í þágu þeirra sem hafa allra lægstu launin. Það er mikilvægt í þessari umræðu að þetta komi fram.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. Við viljum gjarnan greiða fyrir þessu þingmáli og þingstörfunum almennt á þessum tímapunkti en þegar um svo stórt pólitískt mál er að ræða er engu að síður nauðsynlegt að þessar áherslur komi fram af okkar hálfu. Við sjáum þetta með öðrum hætti og hefðum lagt til aðrar breytingar, eins og hér hafa verið raktar í máli hv. þingmanns, fulltrúa okkar í efnahags- og viðskiptanefnd, en engu að síður teljum við að þetta skref sé í rétta átt og munum þess vegna greiða atkvæði með því.