143. löggjafarþing — 47. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[17:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vísa til þess sem áður hefur komið fram um afstöðu okkar til þessa máls og hvers vegna við styðjum það. Það er til bóta, þótt í litlu sé. Það má segja að örlítil jákvæð glæta bætist inn í málið líka núna með breytingunum við 2. umr. því að með því eru þessi hærri fjárhæðarmörk, milli lágtekjuþreps og miðþreps, gerð varanleg í skattkerfinu og rækilega frá því gengið að enginn vafi leiki á um að þau skuli svo standa á næsta ári og taka ekki verðlagsuppfærslu samkvæmt 5. tölulið 66. gr. Það leiðir til þess að þrátt fyrir mikil áform um að endurskoða skattkerfið á næsta ári, kynni svo að fara að tíminn færi í eitthvað annað, stendur málið fyrir sínu og tekur allt saman verðlagsuppfærslum við önnur áramót og þarf þá ekki að hafa áhyggjur af því.