143. löggjafarþing — 48. fundur,  21. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við píratar munum sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu vegna þess að tekjurnar í útgjöldin í þessa leiðréttingu, þeir 20 milljarðar á þessu ári og svo 20 miljarðar á ári næstu þrjú árin þar á eftir, eru ekki í hendi. Við munum fylgjast vel með framvindu þessa máls, en við píratar viljum þrýsta á að réttlætið nái fram að ganga í þessu landi.

Nú eru Hagsmunasamtök heimilanna með dómsmál um lögmæti verðtryggingarinnar á neytendalánum. Við munum sjá það snemma á næsta ári hvort þau eru lögmæt. Hæstiréttur hefur kallað eftir því hjá EFTA-dómstólnum hvort verðtryggð húsnæðislán séu lögmæt. Ef verðtrygging reynist ólögleg mun það leiðrétta lögum samkvæmt þessi lán. Það er leiðin sem við píratar viljum sjá. Það er það sem við höfum þrýst á og munum halda áfram að gera í vetur.

Þessar tekjur eru ekki í hendi, (Forseti hringir.) þess vegna munum við ekki greiða fyrir þessu.