143. löggjafarþing — 48. fundur,  21. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:09]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Virðulegur forseti. Hér kemur til atkvæða nýr liður í heimildargrein fjárlagafrumvarpsins sem kom til meðferðar þingsins við 2. umr. Að minni beiðni var fundað um málið í utanríkismálanefnd þar sem hér er um að ræða heimild til þess að afsala flughlöðum, flugbrautakerfi og tengdu akbrautakerfi til Isavia ohf. að teknu tilliti til þjóðréttarlegra skuldbindinga. Ég taldi hér um að ræða stórt mál sem þyrfti ítarlega umræðu. Að hluta til var fallist á þau sjónarmið með því að bæta inn í þennan lið síðustu setningunni um að hafa skyldi samráð við fjárlaganefnd og utanríkismálanefnd Alþingis áður en heimildin yrði nýtt. Ég tel að þar með sé kominn grundvöllur, ef til stendur að beita þessari heimild, til að óska þá eftir sérstakri (Forseti hringir.) lagasetningu hér að lútandi.

Við munum sitja hjá við atkvæðagreiðsluna um þetta mál, en það hefur tekið (Forseti hringir.) umbótum.