143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

kjarasamningar og verðhækkanir.

[13:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns óska hæstv. forseta og þingmönnum öllum gleðilegs árs og beina máli mínu í fyrstu fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra.

Þegar við lukum þingstörfum fyrir jól reyndi á að Alþingi kæmi að gerð kjarasamninga. Ríkisstjórnin hafnaði þá kröfum aðila vinnumarkaðarins um að eitthvað kæmi frá hinu opinbera til þeirra sem minnsta hafa milli handanna, til fólksins með laun undir 250 þús. kr. Það var það mikið kappsmál ríkisstjórnarinnar að ná að lækka skatta hæstlaunaða fólksins um 3.500 kr. á mánuði, þess sem er með yfir 800 þús. kr. í mánaðarlaun, að hún gat ekki hugsað sér að breyta um stefnu til að þeir sem eru með 250 þús. kr. og minna í mánaðarlaun fengju 1 þús. kr. skattalækkun.

Eins og þetta væri ekki nóg hefur ríkisstjórnin ekki komið sérstaklega myndarlega fram hvað varðar hinn grunnþáttinn í kjarasamningunum sem er verðstöðugleikinn. Það hefur legið ljóst fyrir að það þurfi að hafa bönd á verðhækkunum. Við höfum séð hækkanir frá einkaaðilum undanfarið og ekki hefur skort á það að hæstv. forsætisráðherra og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar tali af myndugleik um að einkaaðilar eigi að halda að sér höndum og ekki hækka gjaldskrár.

Reykjavíkurborg reið á vaðið og frysti allar gjaldskrár. Ríkisstjórnin kaus að fylgja ekki því fordæmi. Nú horfum við fram á að almennt komugjald á heilsugæslustöðvar hækki um 20%, komugjald utan dagvinnutíma 19,2%, greiðsla fyrir vitjun lækna 21,4% á dagvinnutíma og svona mætti lengi telja. Minnsta hækkunin er 4,6% fyrir kransæða- og hjartaþræðingu og keiluskurðaraðgerðir.

Hæstv. forsætisráðherra boðar nýtt kynningar- og upplýsingaátak um mikilvægi þess að halda aftur af verðhækkunum. Ég spyr því: Er ekki alveg ljóst að hæstv. forsætisráðherra muni fyrst beina því átaki að eigin ríkisstjórn og fá hana til að falla frá (Forseti hringir.) verðhækkunum af þessum toga?