143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

kjarasamningar og verðhækkanir.

[13:42]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og stundum áður voru þær forsendur sem hv. þingmaður gaf sér áður en hann spurði spurningarinnar ekki að öllu leyti réttar. Ég læt vera að rekja það en tel þó rétt að taka sérstaklega fram að það sem hv. þingmaður sagði um aðdraganda kjarasamninga og afstöðu ríkisstjórnarinnar til þess var einfaldlega ekki rétt. Ríkisstjórnin lagði þar sitt af mörkum, var reiðubúin til að ráðast í breytingar á nýsamþykktum lögum og fjárlagafrumvarpinu til að greiða fyrir kjarasamningum enda varð niðurstaðan sú að kjarasamningar náðust eftir viðræður sem leiddu af því tilboði ríkisstjórnarinnar. Forsendurnar hvað þetta varðar og raunar önnur atriði sem hv. þingmaður taldi upp eru því ekki réttar.

Það er heldur ekki rétt að minnsta hækkunin á gjöldum sem ríkið innheimti hafi verið sú hækkun sem hv. þingmaður nefndi. Minnsta hækkunin er að sjálfsögðu þeir fjölmörgu liðir og mikill meiri hluti liða sem hækkuðu ekki, engar hækkanir. Í vissum liðum var gert ráð fyrir að verð fylgdi verðlagsþróun en eins og ég gat um áðan var boðið upp á það, til að liðka fyrir gerð kjarasamninga, að þær hækkanir sem höfðu verið áætlaðar til að fylgja verðlagi mundu ekki allar ganga eftir.

Aðalatriðið er að heildaráhrif fjárlagafrumvarps þessarar ríkisstjórnar eru þau að kaupmáttur eykst. Ólíkt fjárlögum undanfarinna ára, sem drógu úr kaupmætti og hækkanir á hinum ýmsu gjöldum sem leiddu til verulega aukinnar verðbólgu, þá hefur fjárlagafrumvarpið nú í för með sér aukinn kaupmátt og þar af leiðandi bætt kjör allra þeirra sem hafa gert kjarasamninga eða munu gera kjarasamninga á næstunni.