143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

kjarasamningar og verðhækkanir.

[13:44]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta loðmullulega svar er þess eðlis að það mun veitast hæstv. forsætisráðherra þrautin þyngri að sannfæra súkkulaðiframleiðendur og matvælakaupmenn þessa lands um að þeir eigi ekki að hækka verð, ef honum finnst í lagi að hækka verð um 20%. Hann segir: Ja, heildaráhrifin af öllu sem ég ætla að gera verða nú bara allt í lagi.

Þessi ríkisstjórn sýnir það enn einn ganginn að hún getur ekki leitt með fordæmi. Hún getur ekki sýnt gott fordæmi. Í haust var öllum heilsugæslum landsins sagt að spara, en fjárveitingar til ríkisstjórnarinnar sjálfrar voru hækkaðar um 23%. Við höfum heyrt hæstv. fjármálaráðherra segja að nauðsynlegt sé að hækka þessi gjöld á sjúklinga vegna þess að heilsugæslan þurfi á þeim að halda. Þetta eru 90 milljónir. Það væri hægt að ná þeim peningum með því að halda aftur af sér í fjölgun aðstoðarmanna ráðherra.

Þessi ríkisstjórn getur ekki forgangsraðað. Hún er ófær um það. Og svo kemur hæstv. forsætisráðherra hér enn einn ganginn og segist aldrei hafa fengið beiðni um það að persónuafsláttur verði hækkaður til að fólkið á lægstu laununum fái eitthvað í sinn hlut. Það liggur fyrir. Hann er þá að lýsa því núna yfir að verkalýðsleiðtogar landsins, sem ítrekað hafa staðfest að þetta var það sem (Forseti hringir.) verkalýðshreyfingin fór fram á af ríkisstjórninni, séu ómerkingar. Það er dapurlegt að forsætisráðherra sé í svona blekkingaleik í þingsölum.