143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

framhald viðræðna við ESB.

[13:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Hún sneri að því hvað ég vildi gera í þessu máli, hvernig ég vildi útkljá það. Ég hélt að hv. þingmanni og flestum hér inni væri mín skoðun á Evrópusambandinu ljós. Ég vil alls ekki að við göngum í Evrópusambandið, tel í raun fráleitt að við göngum í Evrópusambandið. Ég held hins vegar að ég verði að minna hv. þingmann á að Evrópusambandið sem slíkt er og verður deilumál hvort sem menn ganga í það eða ekki. Við þurfum ekki annað en ferðast um Evrópulöndin, funda með þingmönnum í Evrópusambandsríkjunum. Hvað er það sem helst er rætt þar? Evrópusambandið. Evrópusambandsdeilurnar fara ekkert hvort sem við göngum í Evrópusambandið eða ekki. Þær verða alltaf til staðar.

Hv. þingmaður talar um að mögulegt sé að ná góðum samningi. Ég er ekkert viss um að hægt sé að ná góðum samningi. Það er þá vegna þess að við vitum hvað er í boði. Evrópusambandið er í boði og hefur alltaf verið í boði. Það er öllum augljóst og það liggur fyrir hvað er í boði, hvaða undanþágur er ekki hægt að fá og hvaða undanþágur er mögulegt að fá. Það þarf engin geimvísindi til að sjá það, vitum það öll, við hljótum að sjá það. (Gripið fram í.) Það er algerlega ljóst. Það þarf ekki nema að skoða þetta. Lesið þið til dæmis í gegnum leiðbeiningabók Evrópusambandsins varðandi það (Gripið fram í.) — já, það er leiðbeiningabók. Hv. þingmaður hlær. Ef formaður Samfylkingarinnar mundi nú kynna sér það hvernig Evrópusambandið stendur að sínum samningum þá yrði hann margs vísari, t.d. á ekki að (Gripið fram í.) tala um samningaviðræður samkvæmt þessum bæklingi sem Evrópusambandið hefur gefið út. (Gripið fram í: Já.) Ef hv. þingmaður kynnir sér það þá verður hann margs vísari um hvernig Evrópusambandið vinnur.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um að þetta væri deilumál. Þetta er deilumál, það eru skiptar skoðanir um það og það er ágætt að rifja það þá hér upp að það kemur skýrt fram milli þeirra stjórnarflokka sem stýra Íslandi að þessir flokkar eru ekki á leið inn í Evrópusambandið. Það lá fyrir fyrir kosningar og þessir tveir flokkar voru kosnir út á það sem þeir sögðu þar meðal annars þannig að hv. þingmaður þarf ekkert að efast um það hvert við erum að fara í þessu máli.