143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

framhald viðræðna við ESB.

[13:58]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum fullt erindi í Evrópusambandið. Ég er þeirrar skoðunar að með góðum samningi væri betra fyrir Ísland að vera fullgildur aðili að Evrópusambandinu en vera bara aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Það væri betra lýðræðislega svo dæmi sé tekið. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum samleið með Evrópuríkjunum menningarlega og hvað varðar gildi og lýðræði, t.d. í umhverfismálum. Ég er þeirrar skoðunar að það mundi hafa í för með sér umbætur í efnahagslífi hvað varðar verðlag og vaxtakjör að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Það mundi vera mikil vítamínssprauta fyrir útflutning að gerast aðilar að Evrópusambandinu ef góður samningur næðist. (Gripið fram í.) Ég er þeirrar skoðunar líka að hægt sé að ná góðum samningi vegna þess að sérstaða Íslands er mjög mikil. Við njótum t.d. mikillar sérstöðu sem sjávarútvegsþjóð og getum náð samningi á grundvelli þeirrar sérstöðu.

Þó að ég sé þessarar skoðunar mundi mér ekki detta í hug að taka þá ákvörðun einn ef ég væri utanríkisráðherra að við ættum að ganga í Evrópusambandið. Ég mundi leita til þjóðarinnar og spyrja hana: Er þetta góður samningur? Er þetta ásættanleg niðurstaða? Eigum við að gerast aðilar? Og ég ætlast til þess sama af núverandi (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra að hann láti ekki sína skoðun eingöngu ráða för í þessu. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)