143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

framhald viðræðna við ESB.

[13:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður getur verið alveg rólegur, utanríkisráðherra einn mun ekki geta ráðið þessu. Þótt hann kannski glaður vildi þá er það ekki þannig.

Ég ætla ekki að fara í hártoganir við hv. þingmann um einstök atriði varðandi Evrópusambandið. Ég vil þó segja að ég held að við séum sammála um það að Íslendingar og íslensk þjóð er að sjálfsögðu Evrópuþjóð og við erum hluti af Evrópu. En það þýðir ekki að við þurfum að vera hluti af Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Við erum ekki heldur að ganga í Bandaríkin, Kína eða eitthvað annað. (Gripið fram í.) Við erum Íslendingar og við getum sem þjóð ráðið okkar málum sjálf og eins og er og höfum það ágætt.

Ef við göngum í Evrópusambandið þá gerum við t.d. ekki viðskiptasamninga, fríverslunarsamninga við Kína (Gripið fram í.) eða við önnur ríki. Það eru aðrir sem gera það. Ég trúi því varla að hv. formaður Samfylkingarinnar ætli núna að fara að tala á móti þeim samningi með því að gjamma hér fram í, það hlýtur að búa eitthvað annað á bak við það.

Ég vil líka segja að þegar ákvörðun var tekin um að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið þá var þjóðin ekki spurð. Hv. þingmaður var á móti því að spyrja þjóðina hvort hún vildi hefja viðræður við Evrópusambandið. Hvers vegna var það? Hvers vegna var þjóðinni ekki treyst? (Gripið fram í.) Hvers vegna var henni ekki treyst til að hafa skoðun á því hvort (Forseti hringir.) hv. þingmaður eða aðrir samfylkingarmenn mættu ganga til viðræðna? (Gripið fram í.) Ég held að menn ættu (Forseti hringir.) að svara því. [Frammíköll í þingsal.]