143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

endurskoðun jafnréttislaga.

[14:03]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil í fyrsta lagi nefna að sú ráðstefna sem ekki aðeins þrír ráðherrar heldur heil sendinefnd héðan úr þinginu sótti í Brussel fyrr í haust var ekki síst til þess að fagna og veita íslenskum konum og íslensku samfélagi viðurkenningu fyrir þann árangur sem við sem samfélag, sem þjóðfélag, höfum náð og íslenskar konur, forverar okkar, bæði á Alþingi og í viðskiptalífinu, hafa náð með samstilltri baráttu og átaki. Þar er ekki einungis verið að tala um löggjöf.

Í annan stað vil ég leiðrétta þann misskilning sem hv. þingmaður virðist greinilega haldin, það stendur ekki til að endurskoða þessa löggjöf. Það kemur engum hér á óvart sem var þátttakandi í þeirri umræðu á sínum tíma að ég var andsnúin löggjöfinni á þeim tíma. Ég var einmitt að rifja upp þær umræður og það var ekki einungis ég sem var andsnúin löggjöfinni heldur varaði viðskiptalífið, nánast í heild sinni, við henni vegna þess að þá voru aðrar aðferðir í vinnslu, það var nýverið búið að gera samstarfssamning milli atvinnulífsins og stjórnmálaflokka, samstarfssamning milli aðila um að bæta úr þessu máli. Þarna var inngrip í þann samstarfssáttmála.

Það sem verið er að gera núna, og ég er búin að boða til fundar í næstu viku sem hefur orðið fréttaefni, er einmitt að skoða hvar við stöndum. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um að fara inn í þessi lög. Þetta mál er ekki á frumvarpalista í mínu ráðuneyti á þessu þingi og engin ákvörðun, ég ítreka það, hefur verið tekin um að fara inn í löggjöfina á þessu stigi.

Það sem ég er að gera núna vegna þess að ég barðist gegn löggjöfinni, var andsnúin henni, ég vil heyra sjónarmið og ég er algjörlega tilbúin að hlusta á þau sjónarmið (Forseti hringir.) og breyta um skoðun ef menn eru sammála um að þetta sé aðferðin. Við erum bara ekki komin þangað, ég er ekki búin að ákveða hver næstu skref verða. Fundurinn hefur ekki verið haldinn.