143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

verðhækkanir og aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[14:13]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er nú þegar búið að gera lagabreytingar þannig að hv. þingmaður þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ekkert verði gert. Hins vegar verð ég enn og aftur að gera athugasemd við þetta undarlega orðalag sem ekki aðeins hv. þingmaður, heldur líka hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, notaði um að ríkisstjórnin hefði lagst gegn því að auka kaupmátt þeirra lægstlaunuðu. Okkur greinir á um hvaða leiðir eru bestar til þess. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki lagst gegn því að auka þann kaupmátt. Hvernig hefur hann þróast frá tíð síðustu ríkisstjórnar? Er hann verri núna með stefnu núverandi ríkisstjórnar en hjá síðustu ríkisstjórn? Hefur með öðrum orðum núverandi ríkisstjórn á einhvern hátt skert kjör þeirra tekjulægstu eða annarra hópa? [Háreysti í þingsal.] Nei, hún hefur ekki gert það. Hún hefur bætt kjör þeirra lægstlaunuðu sem og annarra hópa. Okkur greinir á um hvernig best er að ná áfram árangri í því að bæta kjör þeirra lægstlaunuðu, en ég tel að reynslan af síðasta kjörtímabili sýni að nálgun síðustu ríkisstjórnar á þau mál reynist ekki vel og að reynslan af þessu kjörtímabili muni sýna að reynslan af nálgun nýrrar ríkisstjórnar muni bera árangur.