143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

staða verndarflokks rammaáætlunar.

[14:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram og hæstv. ráðherra fyrir að vera til svara, enda er málið brýnt. Allt frá því að við hæstv. ráðherra áttum samtal um friðlandið í Þjórsárverum í haust, skömmu eftir að undirritun um friðlýsingu var frestað nokkuð skyndilega, hefur verið uppi óvissa. Þá sagði ráðherra, með leyfi forseta, að komið hefði í ljós að ekki væru allir með það á hreinu hvar mörkin á friðlandinu lægju og hann vildi standa faglega að málum, fá allt upp á borð og finna þá lausn sem allir gætu sætt sig við.

Í kjölfarið heyrðist lítið um þessi mál fyrr en sent var út bréf til sveitarstjórna þar sem lýst var breyttum mörkum friðlandsins. Sú nýja tillaga að breyttum mörkum friðlandsins virðist stafa af því að Landsvirkjun hafi haldið fund með fulltrúum umhverfisráðuneytis og kynnt þar hugmynd að nýjum virkjunarkosti sem hægt væri að ráðast í með breyttum mörkum. Sá virkjunarkostur hefur hins vegar í för með sér mikil umhverfisáhrif á svæðinu í kring, ekki síst á fossana þrjá, Dynk, Gljúfurleitarfoss og Kjálkaversfoss. Það fagfólk sem undirbjó þessa tillögu fyrir gildandi rammaáætlun telur að ekki sé hægt að skilja það svæði frá Þjórsárverum.

Formaður faghóps 1 í rammaáætlun segir þetta svæði hafa verið fjórða mikilvægasta svæðið af þeim 30 sem faghópurinn fjallaði um. Ég kem aðeins nánar að hlutverki fagmanna og fræðimanna hér á eftir en tel að hæstv. umhverfisráðherra verði að gefa okkur skýr svör um tilurð þessara breyttu marka friðlands Þjórsárvera frá þeirri tillögu sem Umhverfisstofnun undirbjó, og hvort það hafi verið hugmynd Landsvirkjunar að nýjum virkjunarkosti sem þar réð ferðinni.

Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra greini hv. þingmönnum frá því hver hin faglegu rök hafi verið fyrir að víkja frá þeim mörkum friðlandsins sem lögð voru til af hálfu Umhverfisstofnunar við undirbúning friðlýsingar svæðisins.

Þá tel ég líka mikilvægt að fá fram sjónarmið hæstv. ráðherra um verndarflokk rammaáætlunar. Lögum samkvæmt ber að friðlýsa þau svæði sem eru í verndarflokki gildandi rammaáætlunar. Í skriflegu svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni um stöðu friðlýsingar svæða í verndarflokki kemur fram að lögum samkvæmt hafi Umhverfisstofnun þegar hafið undirbúning að friðlýsingu svæðanna og hafið formlega vinnu við flest þeirra svæða sem falla í verndarflokk. Þar kemur raunar fram að miða ætti við þau mörk sem Umhverfisstofnun hafði lagt fram um Þjórsárverin. Það hefur breyst síðan þá. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið hvernig þessari vinnu miði, hvort hann staðfesti það ekki hér að þar sem við erum með gildandi rammaáætlun þurfi að vinna eftir henni og kosti sem skilgreindir eru í verndarflokki eigi að friðlýsa og ekki endurskoða, óháð ýmsum óskum orkufyrirtækja um annað sem hafa nú birst í fjölmiðlum, en ýmis fyrirtæki hafa lýst áhuga sínum á svæðum í verndarflokki til orkuöflunar. Ég vil því inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann telji verndarflokkinn vera á einhvern hátt til áframhaldandi umræðu eða hvort það eigi að ljúka friðlýsingu þeirra svæða sem þar eru undir.

Að lokum finnst mér mikilvægt að fá fram sjónarmið hæstv. ráðherra varðandi hlutverk fagfólks og fræðimanna í þessari umræðu. Í síðustu viku sagðist hæstv. ráðherra ætla að hlíta mati fagmanna þegar ný rammaáætlun kæmi til afgreiðslu. Í byrjun þessarar viku sagði hæstv. ráðherra hins vegar að þeir fagmenn sem unnu fyrir verkefnisstjórn rammaáætlunar og skiluðu af sér fyrir tveimur árum væru að blanda sér í pólitík þegar þeir bentu á að mörk friðlýsta svæðisins í Þjórsárverum hefðu verið dregin mjög skýrt. Þeir tíu sérfræðingar sem um ræðir hafa sem sagt andmælt hæstv. ráðherra, að óvissa hafi verið um mörk svæðisins. Hæstv. ráðherra svaraði því til að vinna fagmannanna væri ráðgefandi og spurði hvort stjórnmálamenn hefðu ekki leyfi til að vera pólitískir en fagmenn mættu það.

Í fyrsta lagi: Er það pólitísk skoðun að benda á að mörk friðlandsins hafi verið algerlega skýr í þeirri faglegu vinnu sem fór fram? Ég get ekki séð að það sé pólitísk skoðun.

Í öðru lagi finnst mér hæstv. ráðherra kominn í ákveðna mótsögn við sjálfan sig. Hvenær á að hlusta á fagmenn og hvenær ekki? Hvernig eigum við að skilgreina fagmennsku og hlutverk fræðimanna í opinberri umræðu? Það er vissulega rétt að í ferli rammaáætlunar er það Alþingi sem tekur endanlega ákvörðun. Þar hefur hæstv. ráðherra lýst því yfir að hann telji eðlilegt að hlusta á fagmenn, að pólitíkin eigi ekki endilega að koma nálægt því, en í vikunni þar á eftir bendir hann á fagmenn og segir: Þetta eru bara þeirra skoðanir, þetta er pólitísk umræða.

Þurfum við ekki að fá einhvern botn í það hvernig við ætlum að taka þessa umræðu? Þar þarf ekki endilega að fara í einhverjar skotgrafir því vissulega er ferli rammaáætlunar lögum samkvæmt þannig að þegar faghóparnir hafa skilað af sér er það Alþingi sem tekur afstöðu, pólitíska afstöðu og þar geta orðið breytingar, lögum samkvæmt. Það hefur verið gagnrýnt nægilega. Er ekki ágætt að við lendum einhverri sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig við ætlum að hafa þetta ferli?