143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

staða verndarflokks rammaáætlunar.

[14:20]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í grein sem nóbelsskáldið okkar, Halldór Laxness, skrifaði árið 1970 og birti í Morgunblaðinu og heitir „Hernaðurinn gegn landinu“ var fjallað um Þjórsárver og mikilvægi þess að vernda þau meðal annars. Nóbelsskáldið vitnaði í baráttuna um Gullfoss og sagði þar, með leyfi forseta:

„Málsvari Orkustofnunar lýsti því að væntanleg virkjun fossins yrði framkvæmd þannig að farvegi Hvítár yrði breytt en fossstæðið þurkað. Þó hafði hann í pokahorninu einkennilega viðbót við hugmynd sína. Hann gerði ráð fyrir að tilfæríngar yrðu settar í ána til að hleypa fossinum á aftur ef túristar kæmu, svo hægt væri að kræla útúr þeim svolítinn aðgángseyri.“

Okkur hefur lítið miðað á þessum 43 árum sem liðin eru frá því að þessi orð voru skrifuð af okkar ástkæra nóbelsskáldi.

Það er góð aðferð að raða virkjunarhugmyndum upp í þrjá flokka og hún er til sátta fallin, en það eru mikil vonbrigði þegar hæstv. umhverfisráðherra, sem reyndar er bara umhverfisráðherra í hlutastarfi, nálgast þessa þrjá málaflokka eins og götulistamaður með þrjú glös og lætur almenning og okkur aðra þingmenn hérna giska á hvað hann eigi við í málflutningi sínum og undir hvaða glasi peningurinn sé. Það er mjög erfitt að henda reiður á skoðunum hæstv. ráðherra í þessum efnum. Baráttan um Þjórsárver og virkjunarkostinn sem kallaður hefur verið Norðlingaalda hefur staðið lengi og við héldum að sá kostur væri kominn í skjól þegar hann var settur í verndarhluta rammaáætlunar.

Útfærsla umhverfisráðherra er vond vegna þess að hún er á skjön við niðurstöður fagmanna sem hafa nálgast svæðið allt fyrir ofan Sultartangalón sem eina heild og hafa lagt til og sagt og haldið því fram að ekki væri unnt að ráðast í framkvæmdir þar án þess að hafa áhrif á Þjórsárver. Hún er líka vond í ljósi þess að ef menn fara aðeins upp úr svæðinu og horfa til þess að á þessu svæði eru núna þegar starfræktar fimm mjög hagkvæmar og góðar virkjanir, frá Búrfellsvirkjun upp að Sultartanga, þaðan upp að Hrauneyjafossvirkjun, þá kemur Sigalda og svo Vatnsfell og nú nýtekinn í gagnið Búðarháls.

Hér verðum við að láta staðar numið, ekki síst í ljósi þess að hinum megin við Sprengisand eru uppi tvær hugmyndir við Hágöngur. Enn fremur eru menn líka með hugmyndir um að setja línu yfir Sprengisand, og svo vilja orkufyrirtækin láta endurskoða enn aðra tvo virkjunarkosti í Tungnaá austan við það svæði sem við erum að tala um. Þegar upp er staðið gætu menn kannski sagt að þessi litla framkvæmd þarna í Þjórsárverum skipti ekki máli en hún gengur á mjög mikilvægt ósnert svæði á miðhálendi Íslands sem við verðum að vernda. Það að fara í miðlunarlón í Þjórsá, færa framkvæmdina enn nær Þjórsárverum, þýðir að eftir nokkur ár verður reiknað út hversu hagkvæmur kostur það er að hækka lónshæðina örlítið meira vegna þess að það muni skila svo og svo mikilli aukinni arðsemi. Hvað verður þá eftir af þessum ósnortnu svæðum, þessari gríðarlega mikilvægu auðlind sem við Íslendingar eigum og er takmörkuð?

Það hlýtur að vera neyð hjá þjóð sem umgengst náttúruauðlindir sínar með þeim hætti sem þessar hugmyndir lýsa. Það hlýtur að vera mikil þörf á því að bæta lífskjörin í landinu ef menn haga sér svona gagnvart takmarkaðri auðlind. Sú þjóð sem nálgast auðlindir sínar með þessum hætti hlýtur að hafa reynt alla aðra kosti, kannað hvort búið sé að nýta öll þau bjargráð sem í boði eru. En er búið að gera það? Hættu menn ekki við mjög mikilvæga fjárfestingaráætlun sem hefði getað skapað aukna hagsæld? Eru menn ekki mjög hikandi og hikstandi í því að klára til hlítar viðræður við Evrópusambandið sem getur þýtt stöðugri gjaldmiðil, aukna samkeppni, niðurfellingu gjalda og tollahindrana og aukna hagsæld? Eru menn búnir að reyna það? Nei, svo sannarlega ekki.

Af hverju erum við að gera þetta? Til hvers er verið að þessu? Ef það er einhver meining í því hjá hæstv. ríkisstjórn að okkur farnist best þegar við stöndum saman, sem eru skilaboð ríkisstjórnarinnar um þessi áramót, hvers vegna er þetta þá gert með þessum hætti, hæstv. umhverfisráðherra?