143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

staða verndarflokks rammaáætlunar.

[14:26]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Stutta svarið við spurningu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, hvort hér sé tillaga Landsvirkjunar á ferðinni, er nei. Við hv. þm. Róbert Marshall vil ég segja að Þjórsárver voru friðuð árið 1981. Sú stefna og það sem ég hef sagt í þessu máli hefur snúist um það að stækka friðlandið í Þjórsárverum. Það er lagaleg óvissa og ég ætla að fara yfir það í langa svarinu.

Samkvæmt 58. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, annast Umhverfisstofnun undirbúning friðlýsingar, gerir drög að friðlýsingarskilmálum og leggur fyrir landeigendur, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta.

Til að fara aðeins í gegnum ferlið að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum þá skipaði umhverfisráðuneytið sérstakan starfshóp árið 2006. Hann var skipaður fulltrúum sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar til að kanna möguleika á stækkun friðlandsins, skoða mörk og fleira. Starfshópurinn skilaði sameiginlegri niðurstöðu í mars 2007 og má segja að þá hafi náðst sátt við heimamenn um útfærslu stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum sem er talsvert minni en síðari tillögur á útfærslum sem komu meðal annars fram í náttúruverndaráætlun 2009–2013. Í þeirri áætlun er lagt til að friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað töluvert. Sú tillaga er nokkuð frábrugðin úttekt Náttúrufræðistofnunar og tillögu sem unnin var af fyrrnefndum starfshópi. Í náttúruverndaráætlun 2009–2013 er gert ráð fyrir að friðlandsmörkin nái nokkuð sunnar en starfshópurinn frá 2007 lagði til. Samkvæmt ákvæðum 66. gr. í náttúruverndarlögum, nr. 44/1999, skulu vera sem gleggstar upplýsingar um náttúruminjar, náttúruverndarsvæði, lífverur og vistkerfi sem ástæða þykir til að friðlýsa. Skal í áætluninni lýst sérkennum minja og þýðingu þeirra í náttúru landsins.

Eftir að niðurstaða rammaáætlunar lá fyrir í janúar ákvað þáverandi umhverfisráðherra að mörkin skyldu ná suður fyrir fyrirhugað Norðlingaölduveitulón. Ljóst var þá að ekki næðist sameiginleg niðurstaða hjá viðkomandi sveitarfélögum. Þáverandi umhverfisráðherra lýsti yfir vilja til að leggja fram 28 milljónir austan friðlandsins, auk þess átti að setja í fjáraukalög um 40 milljónir til stækkunar friðlandsins.

Það var því ljóst á þessum tíma að mörk til suðurs yrðu ekki samþykkt nema sérstakt rekstrarfé fylgdi með, einnig fyrir utan friðlandið. Umhverfisstofnun, að höfðu samráði við ráðuneytið, sendi breytta friðlýsingartillögu til tveggja sveitarfélaga til skoðunar í desember 2013 og í kjölfar ábendinga sem fram komu í sumar við lokafrágang um einmitt afmörkun svæðisins var þar gegnið lengra en næmi Norðlingaöldukosti sem settur var í verndarflokki í 2. áfanga. Mörkin hefðu þannig útilokað aðra hugsanlega kosti fyrir utan friðlandið sem á eftir að skilgreina, meta og flokka komi upp álitamál varðandi lögmæti slíks gjörnings.

Að mati ráðuneytisins er heppilegra að lágmarksafmörkun hvers virkjunarkosts í verndarflokki kæmi fram í þingsályktun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Því er gert ráð fyrir að slík afmörkun muni koma fram í framtíðartillögum verkefnisstjórnar sem starfar samkvæmt lögum nr. 48/2011, til að mynda í reglugerð. Jafnframt er í þessu samhengi mikilvægt að minna á það ákvæði í nýsamþykktum lögum um rammaáætlun í þinginu í tíð fráfarandi ríkisstjórnar að hægt sé að senda orkukosti sem komnir eru í verndarflokk en ekki búið að friðlýsa í endurmat til verkefnisstjórnar rammaáætlunar þar sem nýjar útfærslur geta komið til skoðunar. Því gera lögin ráð fyrir að þetta sé gert, svo fremi sem ekki sé búið að friðlýsa viðkomandi landsvæði en innan friðlýstra svæða er óheimilt að meta orkukosti samkvæmt rammaáætlunarlögunum.

Til að þessi umfangsmikla friðlýsing Þjórsárvera færi ekki í uppnám og færi í frest þangað til að endurmat rammaáætlunar á virkjunarkostum lægi fyrir í framtíðinni varð niðurstaðan að breyta lítillega tillögunni að friðlýsingarmörkunum frá því í júní þannig að friðlýsingin næði tryggilega yfir Þjórsárverin sjálf og jafnframt alla þá stóru landslagsheild sem lagt var upp með í náttúruverndaráætlun. Gangi þau áform eftir yrði þarna til eitt stærsta friðlýsta svæði landsins með gríðarlegum náttúruverðmætum. Jafnframt yrðu friðlýst megináhrifasvæði virkjunarkosts Norðlingaölduveitu, 566, 567,5 í Þjórsárverum, sem var settur í vernd í rammaáætlun II.

Hins vegar er ekki gengið lengra en svo samkvæmt lögum um vernd og orkunýtingu að virkjunaraðili getur skilgreint nýjan orkukost utan friðlýsta svæðisins til mats í rammaáætlun í framtíðinni. Til hvers það mat mun leiða mun framtíðin leiða í ljós.

Ég vona að um þessa friðlýsingu geti náðst góð sátt við sveitarstjórnina á svæðinu svo að hægt verði að ganga frá þessari miklu stækkun á friðlandi Þjórsárvera og stofnun þessa glæsilega friðlands.

Varðandi það hvernig ég lít almennt á verndarflokk gildandi rammaáætlunar og faghópanna verð ég að fá að nota síðari hluta svars míns að einhverju leyti. Vinna varðandi þetta er hafin, eins og ég hef áður sagt, á vegum Umhverfisstofnunar samkvæmt náttúruverndarlögum. Friðlýsingar eru mislangt á veg komnar í samskiptum Umhverfisstofnunar og viðkomandi sveitarfélaga og eftir atvikum landeigenda eins og fram kom í skriflegu svari sem hér hefur verið nefnt. Ég verð því miður að geyma síðari hlutann til lokaorða minna við þessa umræðu.