143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

staða verndarflokks rammaáætlunar.

[14:31]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í lok máls hæstv. ráðherra sagði hann það sem skiptir kannski mestu, þegar hann sagði að orkufyrirtækin gætu skilgreint nýjan orkukost utan hins friðlýsta svæðis. Það er útgangspunkturinn í máli hans sem þýðir að það er ástæðan fyrir því að gengið er út frá sömu friðlýsingarmörkum og fráfarandi ríkisstjórn skildi við, fyrir utan tvennt, þ.e. lítið svæði austan við og svo þessi undarlega tota upp með Þjórsá. Þetta er skýringin á því hvers vegna það er gert. Hæstv. ráðherra svaraði því.

Þá hlýtur næsta spurning að vera þessi: Hver er þá staða verndarflokks rammaáætlunar þegar lögin þar um eru algerlega skýr? Þar er fjallað um landsvæði eða orkunýtingarkosti. Verkefnisstjórnin var algerlega skýr hvað það varðaði. Hún kaus að setja landsvæði í verndarflokk, ekki orkukostinn Norðlingaölduveitu eins og hann var skilgreindur af Landsvirkjun heldur landsvæðið. Hvað segja lögin þá? Hæstv. ráðherra ber að fara í friðlýsingu á grundvelli þeirrar skilgreiningar á svæðinu sem sannarlega er í skýrslu verkefnisstjórnar og líka reifuð í rökstuðningi með þingsályktun sem lögð var fyrir þingið þegar rammaáætlun var samþykkt.

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. ráðherra sé ekki á neinu gráu svæði, ég held að hann sé í æpandi mótsögn við anda þeirra laga sem hér voru sett og hann sé í grímulausum leiðangri fyrir því að kasta stríðshanska inn í sáttaferlið gagnvart því mikilvæga verkfæri sem rammaáætlunin er. Hann segir það beinlínis sjálfur. Þegar verkefnisstjórnin er búin að skilgreina landsvæði sem á að fara í verndarflokk þá á að hefja á því friðlýsingu en ekki opna fyrir það að orkufyrirtæki geti (Forseti hringir.) skilgreint það sem svo að þá megi krukka aðeins minna í landsvæðið. (Forseti hringir.) Það er ekki markmiðið heldur að allt svæðið (Forseti hringir.) sé undir og þá ber honum að fara (Forseti hringir.) af stað með friðlýsingarferli.