143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

staða verndarflokks rammaáætlunar.

[14:36]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta er eiginlega alveg ótrúlegt. Það er ótrúlegt hvernig allt það sem búið var að ná sátt um á síðasta þingi — og ég vek athygli á því að ég var ekki hluti af meiri hlutanum þá (Gripið fram í: Pólitísk hrossakaup ...) — hvernig haldið er áfram með þessi pólitísku hrossakaup. Það hefur ekkert breyst hérna og það sem truflar mig svo rosalega mikið við þessi vinnubrögð er að við vorum öll að vinna saman að ákveðnum hlutum. Miklu var fórnað til að hægt væri að ná þessum ramma, miklu var fórnað. Ég man eftir tiltekinni fórn hjá mér til að ná þessari sátt. (Gripið fram í.)

Við sitjum á þessu þingi og verið er að rífa í sundur allt sem gert var á hinu þinginu. Það sem ég upplifi er að við munum aldrei geta búið í heilbrigðu samfélagi, almenningur mun aldrei treysta okkur sem erum hér á Alþingi ef ekki er hægt að treysta því að það sem þingið ákveður að gera á einu kjörtímabili sé ekki rakið í sundur á því næsta. Hvers konar samfélag er þetta? Hvers konar skilaboð eru þetta inn í samfélagið?

Mér finnst að það sem hæstv. umhverfisráðherra, svokallaður, er að gera fari á svig við lög. Það að segja að þetta sé á gráa svæðinu, að þetta sé löglegt en siðlaust, það er bara ekki þannig. Ramminn tiltekur ákveðið verkferli og verndarflokkurinn skal vera verndaður.