143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

staða verndarflokks rammaáætlunar.

[14:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held nú að engu okkar hafi dottið það í hug í janúar sem leið eða fyrir sléttu ári að við stæðum hér frammi fyrir því að hæstv. svokallaður umhverfisráðherra stæði fyrir því að vaða beint inn í verndarflokkinn með virkjunaráform. Hér var verið að ræða stöðu einstakra kosta í biðflokki og hæstv. svokallaður ráðherra og hv. þm. Jón Gunnarsson fóru fram með ýmsar breytingartillögur. Engin breytingartillaga kom fram …

(Forseti (EKG): Forseti vill áminna hv. þingmenn um að nota rétt ávarpsorð gagnvart hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum.)

Ég mun leitast við að gera það, virðulegi forseti.

(Forseti (EKG): Hv. þingmaður leitast ekki við að gera það. Hv. þingmaður fylgir einfaldlega þeim fyrirmælum sem er að finna í þingsköpum Alþingis.)

Þeir hv. þáverandi þingmenn Jón Gunnarsson og Sigurður Ingi Jóhannsson komu fram með ýmsar breytingartillögur við lokaafgreiðslu málsins, en ekki eina einustu breytingartillögu um Norðlingaölduveitu. (Gripið fram í.) Hér eru allt önnur sjónarmið undir eins og komið hefur fram. Hér er komin fram totutillagan mikla. Ég sakna þess nú að hæstv. viðskipta- og iðnaðarráðherra sé ekki hér, sem er guðmóðir þeirrar tillögu, guðmóðir totutillögunnar, hæstv. ráðherra til andlegs stuðnings. Hér erum við líka að horfa upp á mjög alvarlega stöðu sem er sú að hæstv. ráðherra hefur brigslað hópi virtra vísindamanna um annarleg sjónarmið. (Gripið fram í.) Þórarinn Guðjónsson, forseti Vísindafélags Íslendinga, sagði í útvarpinu í morgun að hann gerði ráð fyrir því að (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra bæði þessa vísindamenn afsökunar (Forseti hringir.) á þeim brigslum. (Forseti hringir.) Ég tel fulla ástæðu til þess, virðulegi forseti, ég geri ráð fyrir að ég megi klára þessa setningu, (Forseti hringir.) að hæstv. ráðherra taki þá áskorun (Forseti hringir.) forseta Vísindafélags Íslendinga alvarlega.