143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

staða verndarflokks rammaáætlunar.

[14:46]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir síðustu orð hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar og vonast til að menn geti fært umræðuna upp á hærra plan. Ég vona líka að hv. þingmaður geti ýtt við samstarfsmönnum sínum í Framsóknarflokknum og minnt þá á sögu þeirra hvað varðar umhverfisvernd í landinu vegna þess að ekkert af því sem hæstv. umhverfisráðherra er að gera í þessu máli ber nokkurn vott um að mönnum sé umhugað um umhverfið eða um eðlilegar og almennar leikreglur sem ber að fylgja.

Hér hefur verið talað um hrossakaup af hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Þetta var einfaldlega svona á síðasta kjörtímabili: Norðlingaölduveita kom í verndarflokki frá verkefnisstjórninni allan tímann. (Gripið fram í.) Hún kom í verndarflokki inn á borð okkar ráðherranna. Það var einfaldlega þannig. Síðan fórum við í lögbundið ferli, umsagnarferli, opið umsagnarferli sambærilegu því sem hæstv. umhverfisráðherra er með í gangi núna og menn geta lesið um á heimasíðu hans og heimasíðu ráðuneytisins. Að því loknu, vegna varúðarsjónarmiða, voru sex kostir af 70 eða meira færðir til og þá eingöngu í biðflokk og það urðu ekki meiri tafir en svo að núna er hluti af þeim kominn til baka frá verkefnisstjórninni og inn í umsagnarferlið. Því er haldið fram hér að það hafi átt sér stað einhver hrossakaup á síðasta kjörtímabili þegar það sem gert var snerist eingöngu um varúðarsjónarmið, og menn hefðu heldur betur hugað að þeim varúðarsjónarmiðum til dæmis hvað varðaði Lagarfljót, eins og frægt er orðið.

Ég sem stjórnmálamaður vil miklu frekar ganga varlega fram en að setja mig á það háan hest að telja, eins og hæstv. umhverfisráðherra núna, að það sé einfaldlega hægt að gera breytingar á Norðlingaölduveitu og færa hana úr verndarflokki, þaðan sem hún var sett af fagfólki, ekki stjórnmálamönnum, og mögulega yfir í nýtingarflokk. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þessi umræða (Forseti hringir.) er með slíkum ólíkindum og framkoma ríkisstjórnarinnar með hæstv. umhverfisráðherra í broddi fylkingar er þannig að þeim er alveg sama um rammaáætlun, (Forseti hringir.) þeim er alveg sama um náttúruvernd, þeim er alveg sama hvort það eru leikreglur í landinu. (Forseti hringir.) Þeir ætla að gera nákvæmlega það sem þeir vilja.

(Forseti (EKG): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að virða tímamörk við ræður sínar.)