143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

staða verndarflokks rammaáætlunar.

[14:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn sat í ríkisstjórn með Samfylkingunni var hleypt af stað þeirri rammaáætlunarvinnu og þeim áfanga sem ég sat í. Ég sat í verkefnisstjórn um rammaáætlun og hún skilaði ekki af sér flokkaðri röðun, hún skilaði af sér röð þannig að það er rangt sem hér kemur fram. (Gripið fram í: Faghópar skiluðu …) Það var ekki verkefnisstjórnin, svo það er rangt sem kemur fram í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur. Við skulum halda öllum staðreyndum uppi á borðinu. Þess vegna fór málið í hnút. Þáverandi ríkisstjórn valdi að hræra í þeirri röðun sem kom fram og það hefur verið bókfært af þáverandi utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, hvernig þau hrossakaup áttu sér stað. Þar ofan á bætist svo við hér í umræðunni sú yfirlýsing hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að Hreyfingin hafi líka fengið samning um einhverjar tilfærslur. (BirgJ: … samningur …) Mig langar að fá upplýsingar um hvað það var. Hvaða samningur var það? Það kom fram í ræðu þingmannsins og mér finnst allt í lagi að spyrja að því, (Gripið fram í.) frú þingmaður Svandís Svavarsdóttir. (BirgJ: … einfalt.) Menn þurfa auðvitað að svara þeim spurningum sem hér eru bornar fram fyrst það er fullyrt að líka hafi verið farið í hrossakaup við Hreyfinguna. [Kliður í þingsal.] Því var lýst yfir í ræðu og menn skulu einfaldlega upplýsa hvaða samningur það var.

Herra forseti. Tilgangurinn með því að koma fram með rammaáætlun var auðvitað að skapa sátt. Sá var tilgangurinn í upphafi. Stjórnmálamenn á Alþingi réðu ekki við að fylgja þeirri málsmeðferð til enda, því miður, og fóru að krukka í þá kosti og þá röðun sem kom fram. Það er stóri gallinn og þess vegna var lögð fram sú tillaga af fulltrúum sjálfstæðismanna á þeim tíma að vísa til baka þessari tillögu og láta verkefnisstjórnina sjálfa raða í flokka. (Forseti hringir.) Við hljótum öll að sjá það hér og nú að það hefði verið nær að samþykkja það í þinginu og klára þetta faglega alla leið til enda.