143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

staða verndarflokks rammaáætlunar.

[14:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér kemur í ljós eins og svo oft á hinu háa Alþingi að talað er um hvað seinasta ríkisstjórn gerði og ríkisstjórnin þar á undan og eitthvað slíkt. Ég verð að segja að ég spyr mig ekki þeirra spurninga þegar ég velti fyrir mér þessu tiltekna málefni. Ég velti fyrir mér spurningum eins og: Missum við fossinn Dynk? Missum við þetta svæði? Missum við það varanlega? Missa börnin okkar það? Það eru svona spurningar sem við þurfum að geta svarað hér og ég finn ekki svörin í þessari umræðu.

Það sem mér finnst vanta sérstaklega frá hæstv. ríkisstjórn er, með fullri virðingu, virðulegi forseti, hæstv. umhverfisráðherra. Mér finnst vanta umhverfisráðherra í þessa ríkisstjórn, eins og hér var áðan verið að grínast með, að það væri eins og hæstv. umhverfisráðherra væri bara umhverfisráðherra í aukastarfi. Við vitum alveg hvernig hann hefur verið, við vitum alveg hvað hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt í fortíðinni, lætur eins og umhverfismál séu eitthvað sem þurfi ekki einu sinni sérstakt ráðuneyti. Við erum á Íslandi, við erum á einu fallegasta landi í heiminum og við höfum ekki hæstv. umhverfisráðherra. Það finnst mér ótrúlegt. Mér finnst það óásættanlegt. Mér finnst að þetta þing eigi að taka þennan málaflokk alvarlega. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)