143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[15:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál er svo sem ekki nýtt af nálinni eins og hér hefur komið fram. Ég vil ítreka spurningu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar. Nefndin sem hann vísar í var þverpólitísk og lögð var mikil vinna í að fá sem flesta að þeirri vinnu til að ná sátt um það með hvaða hætti við gætum tryggt jöfnun hvað varðaði raforkukostnað um land allt. Niðurstaðan varð sú að allir raforkukaupendur ættu að leggja í þennan jöfnunarpott. Hér er hæstv. ráðherra að þrengja þetta og færa þetta frá stórum efnahagslega stöndugum einingum í landinu og setja þetta á litlu fyrirtækin og heimilin.

Það er svolítið í anda ríkisstjórnarinnar sem hefur verið að leggja auknar álögur á þessa aðila. Ég vil spyrja: Hver eru rökin fyrir því að fara frá þverpólitísku sáttinni yfir í þessa nýju leið? Hér hefur verið haft afar þröngt samráð, samanber bls. 3 í frumvarpinu um það við hverja haft var samráð í þessu máli.