143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[15:21]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er kannski gagnrýnin sem ég á miklu erfiðara með að svara, hv. þingmaður, svo ég sé alveg ærleg. Þetta er jöfnunargjald sem samkvæmt frumvarpinu er skilgreint sem skattur, enda rennur það í ríkissjóð. Hins vegar er gætt að því að fyrirkomulag þessarar skattlagningar verði mjög einfalt en jafnframt skilvirkt og byggir á innheimtukerfi sem þegar er til staðar þannig að ekki er verið að flækja skattkerfið að því leyti.

Þetta eru að meðaltali 120 kr., eins og ég sagði í máli mínu, á hvern notanda í þéttbýlinu á móti 8% og 9% lækkun í dreifbýlinu. Ég lít svo á, og það er ástæða þess að ég legg þetta frumvarp fram, að hér sé um innviði að ræða. Þetta er nákvæmlega eins og kostnaðurinn við vegakerfið, við fjarskiptakerfið, við uppbyggingu innviða, þetta er kostnaður sem við þurfum sem samfélag að taka þátt í að greiða. Þess vegna legg ég frumvarpið fram.