143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[15:24]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að leiðrétta hv. þingmann. Ég er ekki að leggja hér fram þingmál gegn betri vitund þannig að það komi algjörlega skýrt fram.

Við erum að jafna kostnað á milli dreifbýlis og þéttbýlis með þeirri röksemd, eins og ég fór inn á hér áðan, að þetta eru innviðir í samfélaginu og við tökum þátt í því í sameiningu. Til þess að gera þetta sem einfaldast úr garði var notast við kerfi sem er fyrir. Orkustofnun annast innheimtu gjaldsins. Gjaldtakan er gegnsæ og einföld og eingöngu til þess fallin að jafna þann mun sem er á dreifingarkostnaði raforku í dreifbýli og í þéttbýli. Gert er ráð fyrir því að gjaldið komi fram á raforkureikningum landsmanna þannig að þeir sjái þetta svart á hvítu. Við skoðuðum aðrar leiðir að sama markmiði, meðal annars að taka þessa fjármuni sem upp á vantar af almennu skattfé, en þessi leið, eftir að hafa farið í gegnum þetta allt saman, var talin vænlegust til að ná þessum markmiðum.