143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[15:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að fylgjast með þessari umræðu. Hingað koma hv. þingmenn og keppast við að eigna sér málið. Það verður líka að teljast nokkur frétt í það minnsta að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tók af allan vafa um orkuskattinn sem átti að vera tímabundinn, að það stóð ekki til að hafa hann tímabundinn heldur átti að nota hann í þessa niðurgreiðslu. Ég skildi hv. þm. Kristján Möller þannig að hann ýjaði að hinu sama og það þykir mér nokkuð áhugavert.

Hér hafa menn líka sagt að þessar niðurgreiðslur hafi fyrst verið á fjárlögum 2013. Nú liggur alveg fyrir, klippt og skorið, hver afkoman var fyrir árið 2013, í það minnsta fyrstu 11 mánuðina, og öllum má vera ljóst að þau voru gúmmítékkafjárlög, fjárlög þar sem menn lofuðu fjármunum og gerðu ráð fyrir fjármunum sem engin innstæða var fyrir. Það þarf enginn að deila um það. Sú niðurstaða liggur nú fyrir, þ.e. fyrir fyrstu 11 mánuði ársins, og niðurstaða er komin í þær deilur sem voru um það mál á síðasta ári. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Mér sýnist ég vera ósammála öllum hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Ég vara við því að við förum þessar leiðir. Hér eru menn að setja nýjan skatt til að auka niðurgreiðslur fyrir þá sem bera háan raforkukostnað á ákveðnum stöðum á landinu og það er gert í nafni jöfnunar. Ég hvet fólk til að hugsa aðeins þá hugsun til enda. Útgjöld heimila eru meira en bara það sem snýr að þessu og ef við ætlum að jafna allan kostnað á milli landsvæða er af mörgu að taka. Ég vek athygli á því að sem betur fer er á flestum þeim svæðum þar sem á að greiða niður raforkukostnað sérstaklega mun lægri kostnaður við að kaupa eða leigja sér húsnæði, svo að dæmi sé tekið. Ég tel ekki vilja fyrir því, hvað þá að það sé framkvæmanlegt að jafna þann kostnað. Það er markmið í sjálfu sér að lækka orkukostnað landsmanna allra og það er mikilvægt að við leitum allra leiða til að það sé gert en við munum aldrei ná, alveg sama hvað við reynum, að jafna allan kostnað á milli landshluta eða jafnvel milli hópa fólks í landinu. Oftar en ekki hafa þær leiðir sem við höfum farið til að svo megi verða ýtt undir ákveðið ójafnræði.

Ég beini því sérstaklega til virðulegs forseta, vegna þess að allt sem gert er hefur fordæmisgildi, að athuga að hér er um að ræða skattamál og sömuleiðis ríkisútgjöld eins og kemur skýrt fram í frumvarpinu og athugasemdum við það. Það skiptir því máli að þær hv. þingnefndir sem fjalla um þau mál í þinginu fari yfir þetta mál.

Þegar fulltrúar Byggðastofnunar komu fyrir hv. fjárlaganefnd og ræddu þessi mál og önnur þá hafði ég áhuga á að sjá einhvern samanburð á milli einmitt kostnaðar við húsnæðiskaup, sömuleiðis leigukostnað og fasteignagjöld á milli landsvæða og spurðist því fyrir um það. Þær upplýsingar lágu ekki fyrir en mér var lofað ég fengi þær mjög hratt og vel en hef ekki fengið þær enn þá. Ég hef aflað mér einhverra upplýsinga hjá Þjóðskrá, sem er með stóran hluta af fasteignamati, og það verður að segjast eins og er að aðstöðumunur og munur fasteignaverðs á milli landshluta er mjög mikill. Munurinn er vart marktækur í prósentum en ef hann væri reiknaður þannig væri um að ræða þúsundir prósentna.

Ég efast ekki um afskaplega góðan ásetning eins og er svo oft hjá hv. þingmönnum og í þessu tilfelli hæstv. ríkisstjórn. Ég held að kerfi sem þetta muni frekar flækja hlutina en ná tilætluðum árangri, fyrir utan að við munum ekki að taka alla hluti fyrir varðandi jöfnun á aðstöðumun milli fólks. Þetta er bara einn þáttur þess máls. Það er svo sannarlega um að ræða margs konar útgjöld hjá venjulegum fjölskyldum á Íslandi.

Ég er hins vegar algjörlega meðvitaður um að í þessu máli er ég í miklum minni hluta í þinginu. Það er bara þannig. Það breytir ekki skoðun minni. Stundum er maður í minni hluta en það er mikilvægt, að mínu áliti, að fleiri sjónarmið komi fram í þessu máli.

Ef þetta frumvarp verður að lögum, sem ég tel góðan meiri hluta fyrir í þinginu, tel ég afskaplega mikilvægt að við vöndum til lagasetningarinnar og skoðum þessi mál vel. Ég nefndi hér að það skipti máli að við skoðuðum aðstöðumuninn á milli svæða. Ef maður les frumvarpið má skilja það þannig að fyrst og fremst sé um að ræða niðurgreiðslu til svæða í dreifbýli og miðað við sumar skilgreiningar þarf alla jafna svæði sem í umræðunni er talað um sem dreifbýli ekki að uppfylla þau skilyrði, jafnvel þótt um sé að ræða litla staði sem eru tengdir við dreifbýli. Ýmislegt bendir til þess við lestur frumvarpsins að fyrst og fremst sé um að ræða dreifbýli, þ.e. sveitir, en lítil kauptún og þorp muni ekki heyra undir niðurgreiðslu samkvæmt lögunum. Eftir eftirgrennslan og eftir að hafa skoðað frumvarpið veit ég ekki hvort það sé rétt. Ég efast ekki um að það verði skoðað vel í meðförum nefndarinnar eins og hæstv. ráðherra vísaði sérstaklega til og hvatti til þess að vel yrði farið yfir málið og tek ég undir með hæstv. ráðherra hvað það varðar. En ef málið fer fram í anda laganna er um að ræða sérstakan skatt á þá íbúa landsins sem bera lægri raforkukostnað og er þá væntanlega fyrst og fremst um að ræða höfuðborgarsvæðið og Reykjanes. Hins vegar verður sá skattur nýttur til niðurgreiðslu til hinna dreifðu byggða. Það væri skynsamlegt að skoða sérstaklega hvaða svæði mundu heyra þar undir.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara vekja athygli á þessum sjónarmiðum í umræðunni og segja mína skoðun. Þrátt fyrir að það sé mjög mikilvægt og ég taki undir það markmið að lækka orkukostnað allra landsmanna þá held ég að slíkar leiðir verði oftar en ekki til þess að draga úr nýsköpun og hvata til leiða til að lækka orkukostnað hjá hinum dreifðu byggðum. Því miður getum við ekki náð að jafna aðstöðumun milli svæða þótt við ætlum okkur það og þótt við leggjum okkur öll fram munum við ekki geta það. Það sem ég veit að er mjög aðkallandi núna, ef við erum að tala um aðstöðumun og slæma aðstöðu fólks, og vek athygli á að er eitt brýnasta vandamálið, er ástandið á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að þar er ástandið mjög alvarlegt (Gripið fram í.) og held að þótt við séum öll sammála um að gera eitthvað til að bæta hag þeirra sem eru núna á leigumarkaði eða eru að leita sér að leiguhúsnæði felist lausnin ekki í því að setja gjöld eða skatta á aðra landsmenn sem búa við betri aðstæður annars staðar í landinu. Það held ég að sé ekki leiðin. Við getum leyst þann vanda en við gerum það örugglega ekki með því.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti, en vil þó að lokum hvetja til þess að menn hugsi það vandlega hvaða hv. þingnefndir fjalla um þetta mál. Hér er bæði um að ræða skattamál og ríkisútgjaldamál. Það er mikilvægt að mínu áliti að þær hv. þingnefndir sem eiga að fjalla um slík mál fari yfir þetta mál.