143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[16:04]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Eins og fram hefur komið fyrr í umræðunni er ástæða til að fagna því að hér sé reynt að stíga frekari skref til að jafna stöðu þeirra sem búa í dreifbýli og þeirra sem búa í þéttbýli, þ.e. jafna þann mismun sem þar er víða á varðandi þjónustu.

Það er líka búið að fara ágætlega yfir söguna að hluta til en næst á undan mér í ræðustól var hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og hafði miklar efasemdir um að jöfnun með þessum hætti ætti rétt á sér. Ég ætla að vona að hann hafi mælt rétt þegar hann sagði að hann væri væntanlega í litlum hópi ef ekki einn sem talar gegn þeirri viðleitni að jafna kostnað. Það eru mörg fordæmi um að jafna kostnað. Menn settu sérstök gjöld og eru með það við dreifingu á olíuvörum. Menn voru meira að segja með það á sementsflutningum á sínum tíma og á verði á sölu á sementi. Menn hafa farið í aðgerðir til þess að reyna að jafna stöðu dreifbýlis og þéttbýlis varðandi nettengingar og alla slíka þjónustu. Nú nýjast er að menn hafa verið að styrkja almenningssamgöngur til að reyna að tryggja möguleika þeirra sem búa í dreifbýli og dreifðum byggðum til að nýta sér almenningssamgöngur umfram það sem verið hefur. Það eru fordæmi fyrir því og það var náttúrlega gríðarlega mikið skref á sínum tíma, þegar menn jöfnuðu símkostnað og hættu að borga símkostnað eftir því hvar þeir bjuggu. Á móti kemur að aftur hefur komið upp mismunun hvað varðar nettengingar og kostnað við þær.

Talandi um hvort þetta borgar sig eða ekki er það líka þannig að menn hafa meira að segja gripið inn í í allri Evrópu þar sem menn hafa sett reglur til að hindra að einstakir milliliðir, eða þeir sem komast í yfirburðastöðu eða geta verslað sín á milli, geti lagt á kostnað eins og varðandi notkun á farsímum eða farsímaþjónustu í Evrópu. Þetta eru allt saman dæmi um þá viðleitni að jafna kostnað og búsetuskilyrði í landinu í heild.

Við sem búum utan Reykjavíkur, og ég tala ekki um þá sem búa enn þá lengra, getum auðvitað séð ótal kosti við að búa í dreifbýlinu. Auðvitað verður þetta aldrei jafnað að fullu en ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að hér sé stigið skref til að bæta búsetuskilyrðin hvað varðar raforkukostnað, hvort sem er til húshitunar eða almennrar starfsemi úti á landi eða reksturs heimilisins.

Í þessu frumvarpi hefur verið valin sú leið að setja jöfnunargjald vegna dreifingar á raforku, en eins og hér hefur líka verið rifjað upp voru gerð skil á milli hjá raforkufyrirtækjum. Annars vegar er um að ræða dreifingaraðila og hins vegar söluaðila og því miður tókst okkur ekki að ganga þannig frá því að dreifiaðilarnir væru þá að minnsta kosti þannig að það væri þá opinbert kerfi sem tryggt væri um allt land en á sama tíma væri þá samkeppnin í sambandi við þjónustuna og notkunina, þ.e. sölu í gegnum það kerfi. Þetta hafa sjálfsagt verið mikil mistök og ég tel það hafa verið á þeim tíma, en við búum við þessi lög í dag og það hefur verið augljóst, af því að menn hafa líka verið með þær reglur að ekki mætti færa til kostnað þá hafa menn þurft að borga há dreifingargjöld á ákveðnum svæðum langt umfram það sem eðlilegt er. Og það hefur gert búsetuskilyrðin mun verri en ella.

En þarna er aðeins verið að taka á þessum þætti. Það er svolítið fróðlegt að skoða það í samhengi við þá niðurstöðu sem varð í vinnu sem við vorum að ræða um hér fyrr í andsvörum, að í framhaldi af fundi fyrrverandi ríkisstjórnar á Ísafirði í apríl á árinu 2011 þar sem var einmitt verið að ræða við Vestfirðinga, sveitarfélögin á svæðinu og íbúa, um það hvað brynni helst á þessum aðilum, þá kom í það minnsta mjög skýrt fram að þetta er eitt af því sem brennur mjög á Vestfirðingum, þ.e. kostnaðurinn við raforku og húshitun en ekki síður líka raforkuöryggið, það að geta tryggt að þjónusta sé á viðkomandi svæðum. Síðan var auðvitað rætt líka um samgöngurnar sem skipta gríðarlega miklu máli og nettengingar og aðgang að háhraðaneti.

Í framhaldi af þessu var skipaður sérstakur starfshópur þar sem fjalla átti um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar og skoða hvernig lögin hefðu virkað frá því að þau voru sett árið 2004, hvernig hefði tekist að jafna þennan kostnað. Illu heilli hefur komið í ljós að sett var ákveðin upphæð í upphafi, um 240 milljónir ef ég man rétt, og síðan hefur sú tala nánast verið óbreytt þangað til á síðasta ári þegar bætt var í af fyrrverandi ríkisstjórn.

Þessi hópur gerði tillögur um þrjú atriði í meginatriðum, fyrst og fremst þrjú atriði. Í fyrsta lagi var lagt til, svo að ég lesi bara upp úr skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta:

„Í fyrsta lagi er lagt til að grundvallarbreyting verði gerð á niðurgreiðslukerfinu þannig að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu. Kerfið verður þá sjálfvirkt þar sem öllum breytingum á verði á raforkudreifingu yrði mætt með sjálfvirkum hætti án þess að sérstök ákvörðun þurfi að liggja þar að baki.“

Þarna er sett háleitt markmið um að það verði jafnað fullkomlega þarna á milli. Ég fór til dæmis fram með það í síðustu kosningum og sagði: Þarna er komin tillaga um það með hvaða hætti er hægt að gera þetta. Förum nú fram öll saman, allir stjórnmálaflokkar, og fylgjum þessu eftir. Látum þetta rætast loksins, að það verði full jöfnun hvað varðar kostnað við flutning, dreifingu og sölu á rafmagni til húshitunar á þessum svæðum.

„Í öðru lagi er gerð tillaga að breyttri fjármögnun niðurgreiðslna. Tillaga hópsins er að jöfnunargjald verði sett á hverja framleidda kWst sem næmi þeim kostnaði sem nauðsynlegur er á hverjum tíma til að niðurgreiða að fullu flutning og dreifingu raforku til upphitunar íbúðarhúsnæðis.“

Þarna hafa menn verið að setja spurningarmerki við það af hverju horfið er frá þessari hugmynd. Það kemur fram í skýrslunni mjög skýrt vegna þess að stórnotendurnir eru með allt upp í 80% af notkuninni, að með því að leggja þetta á alla þurfi miklu lægri upphæðir til að ná þessum jöfnuði en ella. Er talað þar um 10 aura sem hefði dugað á hverja framleidda kílóvattstund, en það hefur síðan í þessu frumvarpi verið val hæstv. ráðherra að fara aðra leið og leggja þetta eingöngu á millifærslu innan notendahópsins, þ.e. heimila og minni fyrirtækja, sleppa stóru notendunum sem þrátt fyrir allt eru þá með 80% af framleiðslunni.

Ég vænti þess að þetta verði skoðað í hv. þingnefnd sem tekur frumvarpið til umræðu og meti hvort ekki er hægt að breyta þessu aftur í samræmi við tillögu þessa starfshóps sem skipaður var og var þverpólitískur.

Það er líka forvitnilegt þriðja atriðið sem hópurinn gerir tillögu um:

„… sem snúa að frekari jarðvarmaveituuppbyggingu og bættri orkunýtni, þar ber hæst að starfshópurinn leggur til að jöfnunargjald verði lagt á hitaveitur, svipað og á raforkuframleiðslu, sem geti ávallt tryggt viðgang og vöxt jarðvarmaveitna“.

Þar sem menn hafa verið að taka í notkun nýjar hitaveitur og hafa borgað stofnstyrkjaframlag til margra ára fram í tímann og þar með tryggt að þeir þurfi ekki að borga jöfnun á húshitun til lengri tíma, nú síðast á Skagaströnd, hafa menn lagt á það áherslu að það þarf að fjármagna þetta, tryggja að það sé til fjármagn til að standa við þessi styrkjaframlög. Starfshópurinn vekur athygli á þessu og bendir á það.

Ég held að það sé mikilvægt að við stöndum vörð um þá lausn því að áfram verður að berjast í því að reyna að nýta ódýrustu orkugjafana.

Það eru fleiri forvitnilegar tillögur í þessari vinnu. Þar er víða verið að tala um niðurgreiðslu líka á húshitunarkostnaði hvað varðar olíunotkunina og verið að mæta jöfnun á þeim kostnaði. Menn hafa vakið athygli á því að nú er hægt að hita hús með umhverfisvænna eldsneyti. Þeir hafa bent á grisjunarvið, kurl og jafnvel svokallaðar viðarpillur sem þýðir þá að menn geta gert þetta með öðrum hætti en að nota olíu og það kemur fram í niðurstöðu nefndarinnar að ástæða sé til að skoða hvort ekki er hægt að greiða niður slíkar hitaveitur eða húshitun til jafns við olíuna.

Ég fagna því mjög að menn skuli vera að stíga hér þessi skref og hvet núverandi ríkisstjórn og heiti stuðningi við það að við göngum áfram veginn til að ná þessum jöfnuði. Það verður auðvitað auðveldara ef við dreifum þessu á fleiri aðila en það er þá ekki stærsta málið. Málið er að við náum þeim markmiðum sem sett eru hér fram hvað þetta varðar.

Á sama tíma þurfum við að leggja áherslu á það að á öðrum sviðum — eins og ég sagði áður þegar við vorum að ræða samgöngumálin sem skipta gríðarlega miklu máli hvað varðar kostnað og líka möguleika á að reka starfsemi. Ég gleymdi að nefna hér áðan, þegar við vorum að ræða um jöfnun, að jöfnun flutningskostnaðar hefur líka komið inn og viðleitni fyrrverandi ríkisstjórnar til að fara út í að bjóða út strandsiglingar varð til þess að stóru fyrirtækin fóru að sigla á ströndina sem hefur breytt mjög samkeppnisstöðu ákveðinna fyrirtækja á landsbyggðinni til hins betra.

Ég treysti á að þetta mál verði unnið vel í nefndinni. Það var eitt sem vakti forvitni mína og hefði verið gaman að heyra betri umræðu um, þ.e. þegar menn fara þá leið sem hér er áætlað, að lagðir verði 30 aurar á alla raforkunotkun, síðan greiddur niður sá hluti sem snýr að dreifikerfunum, þá sýnist mér, og það hefði verið gaman að skoða — af því að hæstv. ráðherra nefndi Snæfellsnesið — hvernig þetta kemur út hjá þeim aðilum sem í raunveruleikanum fá hækkun á húshitunarkostnaði. Í heildina kemur mikil hækkun, það er svo mikil notkun varðandi húshitun, svo stór hluti af raforkunotkuninni er vegna húshitunar. Þar verður hækkun um 30 aura en á sama tíma lækkar dreifihlutinn með niðurgreiðslu, hann er misjafn eftir því hvar maður er staddur og hversu mikill tilkostnaður hvað varðar dreifingu á ákveðnum svæðum. Það verður fróðlegt að sjá það í umfjöllun nefndarinnar og í framhaldi umræðunnar hvernig þetta skiptist á ákveðin landsvæði miðað við þessi köldu svæði sem við höfum verið að glíma við. Þar eru stóru tölurnar, þegar við erum að skoða húshitunina á þessum köldu svæðum, þar eru stóru tölurnar. Við sögðum oft, bara þegar maður var sjálfur að borga gríðarlega háan húshitunarkostnaðinn á Akranesi á sínum tíma, þegar við borguðum niður Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, sem sagt mjög dýra fjárfestingu, í umhverfi sem um margt var mjög skrýtið vegna þess að á þeim tíma sem var lögð 60 kílómetra lögn frá Deildartunguhver var ekki felldur niður söluskattur á lögninni en á sama tíma var byggt stóriðjuver á járnblendið á Grundartanga þar sem allur söluskattur var felldur niður. Þá sjáum við hvernig hugsunin var á þeim tíma.

Við vorum að borga á þeim tíma sem við bjuggum á Akranesi oft margfalda upphæð á við Reykvíkinga. Ég ætla ekki að lýsa breytingunni þegar Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar fór inn í Orkuveitu Reykjavíkur og þau gjöld komu í staðinn. Áður var þetta nánast þannig að þegar menn fluttu í blokkir, ef þeir fengu reikninginn fyrir húsfélagið, héldu þeir að þeir væru að borga fyrir sína eigin íbúð og töldu það svipað og áður hafði verið. Þetta er ástandið sem mörg sveitarfélög búa enn þá við. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til að stíga næstu skref, vinna áfram að því að ná þessum jöfnuði og heiti stuðningi við hann í þeirri viðleitni. Ég held að ef við ætlum að halda áfram jafnri byggð í landinu, eða réttara sagt hindra fólksflótta og breytingar hvað varðar byggðirnar, verðum við að reyna að skapa eins gott, sambærilegt umhverfi og mögulegt er í hinum dreifðu byggðum á móti þéttbýli.